Stjórnvöld þurfa að gæta hlutlægni og leitast við að leiða ágreiningsmál við borgarana til lykta í samræmi við lög og réttar upplýsingar. Þótt stjórnvöld hafi svigrúm við að móta og setja fram kröfur og málsástæður í slíkum ágreiningsmálum og þurfi að gæta að opinberum hagsmunum, verða þau eftir atvikum að gæta þess að haga málatilbúnaði sínum í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar sem kunna að setja þeim skorður í þessum efnum.
Á þetta reyndi í nýlegu áliti umboðsmanns þar sem hann benti á að stjórnvöld væru bundin bæði af þeim lögfestu og óskráðu reglum sem gilda um störf þeirra í samskiptum sínum við borgarana, meðferð starfsheimilda og útfærslu verkefna sinna. Það væri á að meðal grunnmarkmiða stjórnsýslureglna að tryggja réttaröryggi borgara í samskiptum við stjórnvöld. Gilti það einnig þegar samskipti borgara við stjórnvöld væru hluti af ágreiningsmáli. Lögmætisreglan og aðrar almennar reglur stjórnsýsluréttar gætu því haft þýðingu við framgöngu þeirra. Þannig hefði t.d. verið talið að stjórnvöld yrðu í samræmi við rannsóknarregluna að hafa aflað nægjanlegra upplýsinga áður en málatilbúnaður þeirra væri settur fram og að stjórnvöld virtu gildandi rétt og leituðust við að framfylgja vilja löggjafans. Enn fremur hefði verið byggt á því að stjórnvöld, í þessari aðstöðu, þyrftu að vissu marki að gæta hlutlægni í málatilbúnaði sínum.
Í málinu reyndi á undirbúning og framsetningu Ríkiskaupa á málatilbúnaði í kærumáli sem umboðsmaður taldi að hefði ekki verið í samræmi við þær kröfur sem gera verður til stjórnvalda í slíkum ágreiningsmálum. Í þeim efnum var einnig hnykkt á því að stjórnvöld ættu ekki að leggja áherslu á að bera sigur úr býtum í rimmu við borgarana ef það væri á kostnað þess að niðurstaða máls byggði á réttum atvikum og lögum.
Fyrirtækið sem átti í hlut hafði beint erindum vegna starfshátta Ríkiskaupa til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Umboðsmaður taldi að viðbrögð ráðuneytisins við þeim hefðu ekki verið í samræmi við þær yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir sem ráðherra færi með gagnvart Ríkiskaupum.
Álit umboðsmanns í máli nr. 9513/2017