18. janúar 2019

Stjórnsýsluleg meðferð mála og skráning upplýsinga

Almennar reglur stjórnsýsluréttarins eru fyrst og fremst réttaröryggisreglur sem er ætlað að veita borgurunum tiltekna réttarvernd í samskiptum við hið opinbera. Þegar umboðsmaður lauk forathugun máls gagnvart velferðarsviði Reykjavíkurborgar áréttaði hann mikilvægi þess að stjórnvöld hugi að verkferlum á einstökum málefnasviðum. Ferlarnir þurfi að vera mótaðir með það fyrir augum að gætt sé að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga og eftir atvikum öðrum lögum sem gilda um viðkomandi ákvarðanir.

Tilefni forathugunarinnar voru fréttir af því að efnaminni foreldrar hefðu tekið lán til að greiða fyrir þroskagreiningu barna sinna á einkareknum stofum, þar sem biðtími í greiningu hjá þjónustumiðstöðvum gæti verið rúmt ár.

Umboðsmaður óskaði eftir upplýsingum frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar um verklag við afgreiðslu beiðna um athugun, greiningu og ráðgjöf. Einnig með hvaða hætti brugðist væri við beiðnum foreldra nemenda um greiningu, sérstaklega í þeim tilvikum þar sem ágreiningur kynni að vera um nauðsyn hennar og beiðni væri synjað.

Í svari velferðarsviðs kom fram að sjaldgæft væri að slíkum beiðnum væri synjað og útlistað í hvaða farveg þær færu. Ef beiðni væri synjað fengju foreldrar leiðbeiningar um kæruheimild. Í öðru bréfi kom fram að í málaskrá sviðsins væru engar upplýsingar um að foreldrum hefði verið formlega synjað um sálfræðilega greiningu á barni. Ekki væri þó hægt að fullyrða að slíkt hefði ekki verið gert í áranna rás, án þess að það hefði verið skráð í málaskrá.

Umboðsmaður taldi ljóst að betur þyrfti að huga að stjórnsýslulegri meðferð þessara mála hjá Reykjavíkurborg. Ákvörðun um að synja beiðni foreldra um greiningu barns á grundvelli grunnskólalaga væri stjórnvaldsákvörðun sem stjórnsýslulög og upplýsingalög giltu um. Það hefði því verulega þýðingu fyrir réttaröryggi og réttarstöðu grunnskólanemenda og foreldra þeirra, að starfsmenn sveitarfélaga leggi mál sem varða beiðni um greiningu í þann farveg að gætt sé viðeigandi reglna stjórnsýslulaga.

Samband íslenskra sveitarfélaga var upplýst sérstaklega um málið þar sem þau sjónarmið sem fram komu í því geta átt við um sambærilegar aðstæður hjá öðrum sveitarfélögum.

 

Skoða nánar