30. janúar 2019

Lögum um umboðsmann breytt

Alþingi samþykkti 13. desember sl.  breytingar á lögum um umboðsmann Alþingis. Þar er nú kveðið á um svokallað OPCAT-eftirlit umboðsmanns sem og vernd þeirra sem greina frá brotum eða ámælisverðri háttsemi stjórnvalda og þeirra einkaaðila sem lúta eftirliti umboðsmanns.

OPCAT-eftirlitið felur í sér að heimsækja og taka út starfsemi staða þar sem dvelur fólk sem er eða kann að vera svipt frelsi sínu. Nokkrum ákvæðum laganna var breytt í tilefni af þessu nýja hlutverki umboðsmanns. Til að mynda var aukið við heimildir hans til aðgangs að gögnum og starfsstöðvum þannig að þær taki jafnframt til stofnana og heimila á vegum einkaaðila.

Þá var lögunum breytt með vísan til þess að þegar niðurstaða umboðsmanns lýtur að atriðum sem heyra undir OPCAT-eftirlitið kann hún að beinast að öðrum þáttum en þeim sem þegar voru afmarkaðir í lögunum, t.d. að því hvort aðbúnaður eða meðferð frelsissviptra séu andstæð sjónarmiðum um mannúð, mannsæmandi aðbúnað eða mannvirðingu. Eftir breytingarnar er enn fremur kveðið á um að umboðsmaður skuli samhliða ársskýrslu sinni  gera grein fyrir starfi sínu við OPCAT-eftirlitið.

Annað nýmæli í lögunum er að þar er nú fjallað um vernd þeirra sem greina frá brotum eða ámælisverðri háttsemi stjórnvalda og þeirra einkaaðila sem lúta eftirliti umboðsmanns. Óheimilt er að láta þann sem hefur veitt umboðsmanni slíkar upplýsingar sæta óréttlátri meðferð, t.d. með því að rýra réttindi hans, segja upp samningi, slíta honum eða láta hann gjalda þess á annan hátt.

Í greinargerð með frumvarpinu var áréttað að hvorki væri gert ráð fyrir nafnlausum tilkynningum né heldur hvatt til slíks fyrirkomulags. Enn fremur að umboðsmaður leiðbeini þeim, sem hyggist senda honum upplýsingar eða gögn, um skilyrði þess að geta notið nafnleyndar.

Lögin voru samþykkt á Alþingi 13. desember og birt í Stjórnartíðindum 7. janúar.