08. mars 2019

Laus störf: Lögfræðingar

Umboðsmaður Alþingis mun á næstunni ráða í tvö störf lögfræðinga. Störfin eru annars vegar við athuganir og úrvinnslu kvartana og annarra mála sem umboðsmaður fjallar um og hins vegar einkum við frumkvæðis- og OPCAT-eftirlit.

  • Leitað er að einstaklingum með embættispróf í lögfræði eða grunnnám í lögfræði auk meistaraprófs í greininni.
  • Æskilegt er að viðkomandi hafi lagt sig eftir stjórnsýslurétti og/eða skyldum greinum í námi eða hafi starfsreynslu á því sviði.
  • Í starfi við frumkvæðis- og OPCAT-eftirlit er að auki æskilegt að viðkomandi hafi sérstaklega lagt sig eftir námi eða hafi reynslu á sviði mannréttinda eða öðrum réttarsviðum sem reynir á við eftirlit með stöðum þar sem frelsissviptir einstaklingar dveljast.
  • Gerð er krafa um gott vald á ritun texta á íslensku.
  • Gerð er krafa um góða kunnáttu í ensku og kunnáttu í einu Norðurlandamáli.
  • Um er að ræða krefjandi störf á sviði lögfræði. Lögð er áhersla á að umsækjendur geti unnið sjálfstætt að greiningu og úrlausn lögfræðilegra álitaefna, séu skipulagðir og hafi gott vald á aðferðafræði lögfræðinnar.
  • Frumkvæðis- og OPCAT-eftirlit felst m.a. í vettvangsathugunum og skýrslugerð um þær. Þeir sem hafa reynslu úr slíkum störfum eru sérstaklega hvattir til að sækja um.
  • Í báðum tilvikum er leitað að einstaklingum sem hafa til að bera frumkvæði, ríka þjónustulund og lipurð í mannlegum samskiptum.

Áhugasamir sem uppfylla ofangreindar hæfnikröfur eru hvattir til að senda inn umsókn. Um starfskjör fer eftir kjarasamningi og nánara samkomulagi.

Umsóknir ásamt upplýsingum um menntun, starfsferil og önnur atriði skal senda á netfangið eða á skrifstofu umboðsmanns Alþingis, Þórshamri, Templarasundi 5, 101 Reykjavík, merkt: Starfsumsókn. Þess er óskað að í umsóknum verði gerð grein fyrir um hvort starfið er sótt og þekkingu og reynslu umsækjanda í samræmi við það sem fram kemur um hvort starf og að staðfesting um nám fylgi. Umsóknarfrestur er til og með 29. mars nk.

Upplýsingar um störfin eru veittar hjá umboðsmanni Alþingis í síma 510 6700. 

  

OPCAT-vefsíða umboðsmanns