Í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns mun dómsmálaráðuneytið beina þeim tilmælum til sýslumannsembætta að haga gjaldtöku fyrir ljósrit og afrit gagna í málum á grundvelli stjórnsýslulaga, í samræmi við gjaldskrá sem sett er með stoð í þeim lögum. Forathugun umboðsmanns lauk þar með.
Tilefni athugunar umboðsmanns var upphaflega kvörtun einstaklings sem laut að beiðni um gögn í forsjár-, umgengnis- og lögskilnaðarmáli hjá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þar sem viðkomandi hafði verið tilkynnt að greiða þyrfti 250 kr. fyrir afrit af hverri blaðsíðu. Umboðsmaður óskaði eftir skýringum sýslumanns á því af hverju gjaldtaka fyrir afrit af gögnum í stjórnsýslumáli væri byggð á lögum um aukatekjur ríkissjóðs en ekki gjaldskrá ráðherra fyrir ljósrit eða afrit sem veitt eru á grundvelli stjórnsýslulaga. Samkvæmt gjaldskránni væri heimilt að krefjast 20 kr. fyrir hverja blaðsíðu í stærðinni A4 eða A5, allt að 100 síðum, en 15 kr. fyrir hverja blaðsíðu umfram það.
Óskað var eftir afstöðu dómsmálaráðuneytisins til þeirrar framkvæmdar og lagatúlkunar sem sýslumannsembættið lýsti í svari sínu. Ráðuneytið taldi gjaldtökuna eiga að byggja á stjórnsýslulögum og að haga ætti henni í samræmi við gjaldskrá þar að lútandi.
Vegna þessara viðbragða og afstöðu ráðuneytisins taldi umboðsmaður ekki tilefni til frekari athugunar á málinu. Áfram yrði þó fylgst með og óskaði umboðsmaður eftir að fá afrit af tilmælum ráðuneytisins þegar þau lægju fyrir.
Forathugun umboðsmanns lauk með bréfi til dómsmálaráðuneytisins og sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 15. mars 2019.