Lög um fjöleignarhús veita ekki svigrúm til að meta hvort afla þurfi samþykkis meðeigenda umsækjanda um byggingarleyfi ef eigandi byggingarréttar sækir um leyfi til að reisa byggingu sem ekki rúmast innan þess sem var gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktum teikningum.
Á þetta reyndi nýlega í kvörtun sem umboðsmanni barst vegna úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Nefndin hafnaði að ógilda ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar sem hafði samþykkt umsókn eiganda um leyfi til að byggja bílskúr á lóð fjöleignarhúss. Var heimilað að bílskúrinn yrði 2,95 metrar á hæð eða 45 cm hærri en gert var ráð fyrir í upphafi og á samþykktum teikningum. Þrátt fyrir að skúrinn væri hærri en gert var ráð fyrir á samþykktum teikningum taldi úrskurðarnefndin að ekki hefði verið þörf á að fyrir lægi samþykki meðeigenda. Vísaði nefndin m.a. til þess að umsækjandi ætti byggingarrétt samkvæmt þinglýstum heimildum og að gert hefði verið ráð fyrir lægri bílskúr í upphafi og á samþykktum teikningum. Hækkun bílskúrsins frá samþykktum teikningum væri óveruleg. Jafnframt taldi úrskurðarnefndin að hækkun skúrsins hefði verið nauðsynleg vegna nútímakrafna í lögum og reglum á sviði byggingarmála.
Umboðsmaður gerði athugasemdir við þá afstöðu nefndarinnar að ekki þyrfti að afla samþykkis meðeigenda við aðstæður sem þessar. Taldi hann að í lögum um fjöleignarhús væri ekki svigrúm til að meta hvort afla þyrfti samþykkis þeirra ef eigandi byggingaréttar sækti um leyfi til að reisa byggingu sem ekki rúmaðist innan þess sem gert var ráð fyrir í upphafi og á samþykktum teikningum. Benti hann á að byggingarréttur umsækjandans byggði á einkaréttarlegum gerningi og þyrftu stjórnvöld skýra lagaheimild til að breyta honum.
Umboðsmaður beindi því til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að taka málið til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá viðkomandi, og leysa þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í álitinu. Jafnframt að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum í störfum sínum.
Álit umboðsmanns í máli nr. 9835/2018