06. maí 2020

Rafræn undirritun meðmæla fyrir forsetaefni

Ekki er ástæða til að gera athugasemdir við ákvæði í reglugerð um rafræna söfnun meðmæla með forsetaefni. Þetta er niðurstaða umboðsmanns vegna kvörtunar yfir að samkvæmt nýrri reglugerð þurfi sá sem vill mæla rafrænt með tilteknum forsetaframbjóðanda að skrá sig inn í meðmælendakerfi Þjóðskrár Íslands með rafrænum skilríkjum.

Í kvörtuninni var m.a. vísað til að einungis einn aðili, sem væri einkaréttarlegur, gæfi út rafræn skilríki hérlendis og að mögulegt hefði verið að tryggja fullnægjandi öryggi við skráninguna með styrktum Íslykli sem gefinn sé út af opinberri stofnun, Þjóðskrá Íslands.

Vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi eru í samfélaginu vegna heimsfaraldurs COVID-19 voru breytingar á lögum um framboð og kjör forseta Íslands og lögum um kosningar til Alþingis samþykktar 14. apríl sl. Þær fela m.a. í sér bráðabirgðaákvæði um að dómsmálaráðherra sé heimilt að mæla fyrir um í reglugerð að safna megi meðmælum með forsetaefni rafrænt.

Í svari ráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom fram að nauðsynlegt væri að krefjast hæsta öryggisstigs við veitingu meðmælanna. Rafræn undirritun með rafrænu skilríki væri eina aðferðin sem gæti talist sambærileg eiginhandarundirritun og hefði lagalegt gildi. Að fengnum upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að fullyrða annað en að ráðuneytið hefði byggt á viðhlítandi lagasjónarmiðum við ákvörðun um tegund rafrænnar auðkenningar við setningu reglugerðarinnar. Að virtu því svigrúmi sem lögin veita ráðherra til að útfæra umrædda stjórnsýsluframkvæmd taldi umboðsmaður jafnframt ekki forsendur til að gera athugasemdir við að nota þyrfti rafræn skilríki fremur en styrktan Íslykil. Það hefði ekki áhrif þótt einkaréttarlegur aðili gæfi skilríkin út enda markmiðið fyrst og fremst að tryggja örugga undirskrift meðmælanda og áfram yrði heimilt að safna undirskriftum meðmælenda á hefðbundinn hátt á pappír. Sú heimild hefði þýðingu þar sem möguleikar fólks til að afla sér rafrænna skilríkja kynnu að vera misjafnir eftir búsetu. Þá yrði ekki annað ráðið af bréfi ráðuneytisins en gætt hefði verið að því að tryggja trúnað um þær upplýsingar sem yrðu til hjá viðkomandi fyrirtæki við notkun rafrænna skilríkja sem það gefur út.  

Umboðsmaður lagði áherslu á að afstaða sín í málinu byggði á þeim lagareglum sem hefðu verið settar sérstaklega í tilefni af þeim aðstæðum sem skapast hefðu í samfélaginu vegna samkomubanns og sóttvarnaraðgerða yfirvalda sem ætlað væri að hafa tímabundið gildi.

  

Bréf umboðsmanns í máli nr. 10502/2020