06. maí 2020

COVID-19 og starfið hjá umboðsmanni

Það hefur mikið mætt á ýmsum sviðum opinberrar stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga að undanförnu vegna áhrifa og ráðstafana sem tengjast COVID-19. Umboðsmanni Alþingis er falið það hlutverk að hafa í umboði Alþingis eftirlit með störfum stjórnsýslunnar og borgararnir geta leitað til umboðsmanns ef þeir telja að stjórnsýslan hafi ekki staðið rétt að úrlausn á máli þeirra. Sú regla gildir þó að umboðsmaður getur ekki tekið kvörtun til meðferðar fyrr en búið er að að nýta þær kæruheimildir sem fyrir hendi eru innan stjórnsýslunnar.

Síðustu vikur hafa umboðsmanni borist ýmis erindi sem tengjast COVID-19 auk fyrirspurna um þessi mál sem starfsmenn umboðsmanns reyna eftir föngum að leysa úr. Þótt gera hafi þurft tilteknar sóttvarnaráðstafanir á skrifstofu umboðsmanns hefur verið lögð áhersla á að geta sem fyrst brugðist við slíkum fyrirspurnum og svara þeim erindum sem hafa borist. Í því sambandi er mikilvægt að borgararnir fái sem fyrst svör ef umboðsmaður getur ekki sinnt erindinu þar sem eftir er að nýta kæruleiðir innan stjórnsýslunnar eða viðfangsefnið fellur utan við starfssvið umboðsmanns, svo sem ef athugasemdir eru gerðar við starfshætti einkaaðila, þar með talið við starfshætti banka sem ríkið á hlut í eða opinber hlutafélög. Sum þessara erinda hafa lotið að efni frumvarpa sem lögð hafa verið fram á Alþingi vegna þessara mála en slík mála falla utan við starfssvið umboðsmanns þar sem hann fjallar ekki um störf Alþingis.

Sem dæmi um fjölbreytni mála sem stjórnsýslan hefur tekist á við og komið hafa til kasta umboðsmanns má nefna mál sem tengjast notkun á  rafrænum skilríkjum, sjá mál nr. 10502/2020, ýmis fjölskyldumálefni, takmarkanir á opnunartíma stofnana, álitaefni tengd aukinni rafrænni stjórnsýslu, áhrifum breytinga á neyslu á útreikning á vísitölum, ákvarðanir er varða stöðu og aðbúnað fanga og frelsissviptra einstaklinga og áhrif samþykktra lagabreytinga að því er varðar fjárhagslega fyrirgreiðslu og aðstoð við einstaklinga og fyrirtæki eða réttarstöðu neytenda, svo sem til endurgreiðslu vegna ferðaþjónustu. Í sumum tilvikum hefur þegar við fyrstu athugun orðið ljóst að þær kvartanir og ábendingar sem hafa borist, hljóða á um efni sem fellur utan starfssviðs umboðsmanns að skoða, t.d. í tengslum við starfsemi einkaaðila í ferðaþjónustu. Þá getur reynt á leiðbeiningar til viðkomandi um möguleika hans á að leita til stjórnvalda sem kunna að hafa heimild til að fjalla um málið eða úrskurðarnefnda, t.d. á sviði neytendamála.

Umboðsmaður sinnir sérstaklega eftirliti með aðbúnaði og aðstæðum einstaklinga sem hafa verið sviptir frelsi sínu og dvelja á stofnunum og heimilum, svonefndu OPCAT-eftirliti. Þetta eftirlit byggist á samningi Sameinuðu þjóðanna og hafa OPCAT-eftirlitsaðilar með sér fjölþjóðlegt samstarf. Á þeim vettvangi hefur verið hvatt til þess að einstakir OPCAT-eftirlitsaðilar gæti sérstaklega að stöðu frelsissviptra einstaklinga vegna aðgerða sem gripið er til vegna COVID-19 og það hefur verið gert hér á landi af hálfu umboðsmanns.

Eins og áður sagði getur umboðsmaður ekki fjallað um kvartanir fyrr en kæruleiðir innan stjórnsýslunnar hafa verið nýttar. Það kann því að líða nokkur tími frá því að borgarinn hefur fengið þá ákvörðun stjórnvalds sem hann er ekki sáttur við þar til hún getur komið til athugunar hjá umboðsmanni. Ef litið er til reynslunnar í kjölfar þeirra vandamála sem komu upp eftir fjármála- og efnahagsáfallið árið 2008 fjölgaði kvörtunum til umboðsmanns verulega á árunum 2011 til 2014 og þá eftir að málin höfðu komið til kasta kærustjórnvalda. Hvort þetta verður raunin í kjölfar mála sem tengjast COVID-19 er ekki hægt að segja til um. Umboðsmaður telur hins vegar mikilvægt, í ljósi þeirra hnökra á starfsháttum stjórnvalda sem komu í ljós við athugun hans á málum eftir fjármála- og efnahagsáfallið árið 2008, að vera þegar á varðbergi ef í ljós koma hliðstæðir almennir annmarkar á starfsháttum stjórnvalda og vandkvæði vegna álags. Þá með það í huga að gera viðeigandi ráðstafanir til að varpa ljósi á þau mál og hvetja tímanlega til úrbóta og setja fram leiðsögn um hvernig hann telur rétt að bæta þar úr. Upplýsingum um þau erindi og ábendingar sem berast og tengjast málum vegna COVID-19 er því haldið til haga með skipulegum hætti.

Áðurnefndar sóttvarnaraðgerðir á skrifstofu umboðsmanns og aðstæður hjá starfsmönnum, m.a. vegna takmarkana í skólastarfi, hafa að einhverju marki orðið til að seinka afgreiðslu mála sem hafa verið í vinnslu hjá umboðsmanni en vonast er til þess að unnt verði að vinna það upp á næstunni. Umboðsmaður fylgist áfram með framvindu þeirra mála sem stjórnsýslan tekst á við vegna COVID-19 og nýrra lagareglna, m.a. um fjárhagslega aðstoð við einstaklinga og fyrirtæki, þannig að unnt verði að bregðast sem fyrst við kvörtunum og almennum erindum og fyrirspurnum sem berast skrifstofunni af þessu tilefni.