19. júní 2020

Spurt um aðstæður grunnskólanema vegna dæma um veru þeirra í gluggalausu rými

Umboðsmaður hefur óskað eftir upplýsingum frá bæði mennta- og menningarmálaráðuneytinu og skólaskrifstofum 17 sveitarfélaga vegna athugunar hans á aðbúnaði grunnskólanema við ákveðnar aðstæður.  

Tilefnið eru ábendingar sem borist hafa með kvörtunum og öðrum erindum þar sem lýst er atvikum þegar nemendur hafa verið færðir frá samnemendum sínum inn í lítil gluggalaus rými, hvort heldur það er til skemmri tíma eða ætlunin sé að kennsla viðkomandi fari alfarið fram við þessar aðstæður.

Í grunnskólalögum kemur m.a. fram að allir nemendur grunnskóla eigi rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem taki mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan. Í bréfi til skólaskrifstofanna er spurt hvort þeim hafi borist ábendingar eða kvartanir vegna aðstæðna sambærilegum þessum á undanförnum fimm árum og hvort vart hafi orðið við slíka framkvæmd við almennt eftirliti með skólastarfi. Ráðuneytið er spurt að því sama en hafi því ekki áður borist vitneskja um tilvik sem þessi, er einnig óskað eftir upplýsingum um hvort það telji ástæðu til að bregðast við með einhverjum hætti, s.s. að kanna hvort úrræðum sem þessum sé beitt og þá hvernig aðbúnaði sé háttað.

Umboðsmaður óskar eftir svörum fyrir 15. júlí nk. og í kjölfar þeirra ákveður hann hvort ástæða sé til að taka þetta til almennrar athugunar. Berist upplýsingar sem gefa umboðsmanni tilefni til, kann hann einnig að fara í vettvangsheimsóknir í skóla í haust.

 

 

Bréf umboðsmanns til mennta- og menningarmálaráðuneytis

Bréf umboðsmanns til sveitarfélaga