13. júlí 2020

Þjóðskrá spurð um eftirlit með skráningu lögheimilis og aðseturs

Umboðsmaður hefur sent Þjóðskrá Íslands fyrirspurnarbréf vegna tiltekinna atriða sem hann hefur ákveðið að kanna í tengslum við skráningar lögheimilis og aðseturs og eftirlits með þeim af hálfu þjóðskrár. 

Tilefni skrifanna eru upplýsingar í fjölmiðlum í kjölfar eldsvoða á Bræðraborgarstíg í Reykjavík í júní sl. Meðal annars kom fram að 73 einstaklingar hefðu verið með skráð lögheimili í húsinu sem brann en ekki hefði legið fyrir hversu margir voru raunverulega til heimilis þar. Einnig að í húsi við hliðina hafi 134 verið með skráð lögheimili og síðan komu fleiri fréttir um slík dæmi í framhaldinu. Fram kom hjá forstjóra þjóðskrár að ekki væru takmörk, t.d. eftir fermetrafjölda, á því hversu margir mættu vera skráðir með lögheimili á hvert hús eða íbúð. Þá var greint frá því að þjóðskrá hefði að undanförnu tekið mál upp að eigin frumkvæði þegar fjöldi íbúa væri talinn gefa til kynna að lögheimilisskráning gæti verið röng.

Umboðsmaður óskar eftir að þjóðskrá upplýsi á hvaða grundvelli afstaða forstjórans, til þess að ekki séu takmörk á því samkvæmt lögum hversu margir einstaklingar séu skráðir með lögheimili á hvert hús eða íbúð, byggir. Einnig hvernig skráning lögheimilis hjá stofnuninni fer fram. Þá er óskað eftir upplýsingum um hvernig brugðist er við tilkynningum til þjóðskrár um lögheimili í tiltekinni íbúð eða húsi ef skráður fjöldi einstaklinga með lögheimili á staðnum er slíkur fyrir, að ólíklegt sé að fleiri geti haft þar fasta búsetu miðað við skráðan fermetrafjölda eignarinnar samkvæmt fasteignaskrá.

Ennfremur óskar umboðsmaður eftir upplýsingum um hvort ástæða þess að svo margir séu í sumum tilfellum skráðir með lögheimili í sama húsnæði sé að tilkynningum um breytt lögheimili og aðsetur, sem skila ber eigi síðar en viku eftir að breytingar verða, sé ekki sinnt. Sé svo er óskað upplýsinga um hvaða eftirlit og viðbrögð Þjóðskrá Íslands viðhefur til að tryggja rétta skráningu.

Að lokum biður umboðsmaður um upplýsingar um þau mál sem þjóðskrá hefur tekið upp að eigin frumkvæði þegar fjöldi íbúa er talinn gefa til kynna að um ranga lögheimilisskráningu sé að ræða. Til að mynda um fjölda þeirra, hvaða viðmið eru lögð til grundvallar þegar ákveðið er að taka mál til athugunar að þessu leyti, hvernig athugun á þeim fer fram og um framvindu þeirra og niðurstöður, liggi þær fyrir. Jafnframt er óskað upplýsinga um hvort slíkar athuganir hafi orðið tilefni til viðbragða af hálfu Þjóðskrár Íslands og þá hverra.

Umboðsmaður óskar eftir svörum frá þjóðskrá og gögnum sem varpa ljósi á þessa þætti fyrir 10. ágúst nk. svo hann geti tekið afstöðu til þess hvort tilefni sé til að taka þetta til athugunar á grundvelli frumkvæðisheimildar sinnar. Var samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu sent afrit af bréfinu til upplýsingar.

 

 

Bréf umboðsmanns til Þjóðskrár Íslands