Kvörtunum til umboðsmanns Alþingis fjölgaði verulega síðasta vetur samanborið við síðustu ár. Fyrstu sex mánuði þessa árs bárust umboðsmanni 265 kvartanir en 191 á sama tíma í fyrra, sem er 39% fjölgun milli ára.
Fjöldi kvartana sveiflast nokkuð milli mánaða eins og t.d. má sjá af samanburði á júnímánuði. Alls bárust umboðsmanni 62 kvartanir í júní síðast liðnum sem eru tvöfalt fleiri kvartanir en bárust í júní 2019, en þá voru þær 28.

„Þótt fjöldi kvartana hafi tekið stökk í síðasta mánuði þá hefur þetta verið viðvarandi þróun í vetur. Þegar litið er til efnis kvartananna sést að þær fjalla eins og áður um margvísleg mál innan stjórnsýslunnar og fjölgunin verður ekki rakin til einhverra tiltekinna málaflokka. Kvartanir vegna ráðstafana og inngripa stjórnvalda vegna COVID-19 hafa ekki verið margar. Þar getur skipt máli að fólk þarf að tæma kæruleiðir innan stjórnsýslunnar áður en umboðsmaður getur fjallað um kvartanir. Hins vegar höfum við fundið fyrir auknu álagi í formi fyrirspurna vegna mála sem tengjast ýmsum hliðum COVID-19 og aðgerðum stjórnvalda á því sviði,“ segir Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.

Þrátt fyrir þessa fjölgun kvartana hefur tekist að halda í við hana að því er varðar afgreidd mál. Um síðustu mánaðamót höfðu 46% fleiri mál verið afgreidd en á sama tíma árið 2019. Af hálfu umboðsmanns hefur verið lögð áhersla á að þeir sem leita til hans fái sem fyrst upplýsingar um hvort umboðsmaður geti fjallað um málið og ef svo er þá sé málið lagt í farveg gagnvart stjórnvöldum. „Þessi fjölgun kvartana hefur hins vegar leitt til þess að okkur hefur ekki tekist að halda þeim málshraða sem ég hefði kosið við afgreiðslu þeirra mála sem lýkur með álitum eða ítarlegum lokabréfum. Þá höfum við því miður ekki getað sinnt frumkvæðismálum í þeim mæli sem ég hef talið þörf á og tafir hafa orðið á meðferð mála vegna kvartana sem ég hef talið rétt að vinna samhliða tilteknum frumkvæðisathugunum. Sú áskorunin sem mætir mér og mínu starfsfólki í lok sumars er því að hraða afgreiðslu þessara mála“ segir Tryggvi.
|
Innkomin
2020 /2019
|
Afgreidd
2020 / 2019
|
Janúar |
44 / 32 |
44 / 21 |
Febrúar |
45 / 26 |
21 / 19 |
Mars |
41 / 46 |
31 / 41 |
Apríl |
37 / 28 |
46 / 26 |
Maí |
36 / 31 |
43 / 26 |
Júní |
62 / 28 |
52 / 29 |
Samtals |
265 / 191 |
237 / 162 |