20. júlí 2020

Skýra þarf réttindi þeirra sem ekki skilja íslensku í samskiptum við stjórnvöld

Aukinn fjöldi þeirra sem búa og starfa á Íslandi og skilja ekki íslensku kallar að áliti umboðsmanns Alþingis á að tekin verði skýrari afstaða í lögum og framkvæmd til þess hver eigi að vera réttindi þeirra sem ekki skilja íslensku í samskiptum við stjórnvöld. Þar reynir á að þeir fái leiðbeiningar og svör við erindum á máli sem þeir skilja auk túlkaþjónustu.

Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns vegna frumkvæðisahugunar á stöðu þessara mála sem hann hefur sent frá sér. Athugunin hófst á árinu  2018 vegna ábendinga og kvartana sem borist höfðu þar sem gerðar höfðu verið athugasemdir við viðbrögð stjórnvalda við erindum frá fólki sem ekki talar eða skilur íslensku. Við athugunina var óskað eftir upplýsingum frá 29 stjórnvöldum um hvernig þau höndli mál þar sem svona háttar til. Markmiðið var að varpa ljósi á stöðu þessara mála og gera úttekt á lagalegri stöðu þeirra hér á landi.

Athugunin gaf umboðsmanni tilefni til að draga tvennt sérstaklega fram:

  • Annars vegar telur hann að tiltekin afstaða og framkvæmd stjórnvalda hér á landi veki upp spurningar um hvort þau hugi í öllum tilvikum nægilega vel að þeim skyldum sem á þeim hvíla með hliðsjón af þeim kröfum sem leiða eða kunna að leiða af núgildandi lagaumhverfi og gerðar eru til málsmeðferðar þeirra.
  • Hins vegar virðist framkvæmd stjórnvalda á þessu sviði vera sundurleit sem undirstrikar í einhverjum tilvikum óljósan lagagrundvöll þessara mála og/eða skort á að þar sé mælt fyrir um inntak skyldna stjórnvalda til að veita aðstoð og leiðbeiningar þegar þau eiga í samskiptum við einstaklinga sem ekki skilja íslensku.

Umboðsmaður bendir í áliti sínu á að það verði að vera stjórnvalda og sérstaklega Alþingis að taka skýrari afstöðu til þess hvort vilji standi til þess að mæla með beinum og skýrari hætti en nú er fyrir um það í lögum hverjar eigi að vera skyldur stjórnvalda þegar til þeirra leitar fólk sem ekki skilur íslensku. Nú eru í löggjöf um ákveðin svið stjórnsýslunnar, svo sem starfsemi grunnskóla og í lögum um réttindi sjúklinga, bein ákvæði um að tryggja skuli túlkun þegar í hlut eiga t.d. foreldrar og sjúklingar sem ekki tala íslensku. Þegar þessum sérákvæðum sleppir eru lagareglur um þessi mál almennar og matskenndar. Þannig er ekki gengið lengra í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls frá 2011 en að stjórnvöld skuli leitast við að tryggja að sá sem skilur ekki íslensku geti fengið úrlausn erinda sinna og tileinkað sér efni skjala og skilríkja sem skipta hann máli.

Þá bendir umboðsmaður á að reglur stjórnsýslulaganna og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins leggi ákveðnar skyldur á stjórnvöld um leiðbeiningar og að veita þeim sem í hlut eiga rétt á þátttöku í undirbúningi ákvarðana í málum þeirra og birta þeim ákvarðanir og leiðbeina af því tilefni t.d. um kæruheimildir. Þessi réttur sé til lítils ef þetta er gert á tungumáli sem viðkomandi skilur ekki. Umboðsmaður telur að skýra eigi þessar reglur stjórnsýslulaganna og stjórnsýsluréttarins þannig að stjórnvöld þurfi að gæta að því að úrlausn mála gagnvart þeim sem leita til þeirra og skilja ekki íslensku sé veitt á tungumáli sem þeir skilja. Umboðsmaður bendir á að þetta sé sami skilningur og byggt er á í Danmörku og Noregi þar sem Ísland hefur sótt fyrirmyndir að þessum réttarreglum.  Athugunin sýni að hér á landi hafi stjórnvöld gjarnan ekki fylgt þessari túlkun stjórnsýslulaganna.  Til marks um það sé að vísað hafi verið til tæplega 20 ára gamals bréfs frá dómsmálaráðuneytinu, til skýringar þess að sýslumönnum bæri ekki skylda til að eiga samskipti við þá, sem til þeirra leita, á öðru tungumáli en íslensku.

Umboðsmaður telur sig merkja af svörum frá stjórnvöldum að þau og starfsmenn þeirra séu í ákveðinni óvissu um hvaða skyldur hvíla á þeim um notkun tungumála í samskiptum við þá sem ekki tala eða skilja íslensku þegar sleppir sérákvæðum í lögum um þær skyldur. Umboðsmaður telur að þessa óvissu starfsmanna stjórnvalda og það sama gildi um þá borgara sem ekki tala eða skilja íslensku megi m.a. rekja til þess hvernig Alþingi hefur hagað almennri lagasetningu um þessi mál.

Í lok álitsins beinir umboðsmaður ákveðnum ábendingum og tilmælum til Alþingis og ráðherra, hvers á sínu málefnasviði, um að tekin verði afstaða til þess í lögum með skýrari hætti en nú er að hvaða marki eigi að mæta þörfum þeirra sem ekki skilja íslensku í samskiptum þeirra við stjórnvöld.  Þá bendir umboðsmaður jafnframt á að með hliðsjón af núverandi lagaumhverfi verði málsmeðferð stjórnvalda að taka mið af því að tryggja réttindi borgaranna sem eru undirliggjandi hverju sinni og að þessu þurfi að gæta þegar í hlut eiga einstaklingar sem ekki skilja íslensku.

Þá bendir umboðsmaður á að ef stjórnvöld birti almennar upplýsingar um starfsemi sína þurfi þau að tryggja að þær séu aðgengilegar, réttar og nægilega ítarlegar til að borgararnir geti gert sér grein fyrir réttindum sínum og möguleikum, einnig þeir sem ekki skilja eða tala íslensku. 

Að lokum vekur umboðsmaður sérstaka athygli Alþingis og ráðuneyta, og þá sérstaklega forsætisráðherra, á þeirri óljósu framkvæmd og mismunandi skilningi stjórnvalda á því hver beri ábyrgð á að þýða lög og reglur, sem undir málefnasvið viðkomandi heyrir, yfir á önnur tungumál en íslensku og hvernig birtingu þeirra er háttað. Mikilvægt sé að tekin verði skýrari afstaða til þess hvernig þessum málum skuli háttað og hvort tilefni sé til að samræma verklag innan stjórnarráðsins með hliðsjón af réttaröryggi borgaranna.

Álitið er sent öllum ráðherrum með það í huga að þeir taki til umfjöllunar þau tilmæli og ábendingar sem snerta þeirra málefnasvið. Þá fá stjórnvöldin 29 sem beðið var um upplýsingar frá álitið sem og Samband íslenskra sveitarfélaga með ósk um að það verði kynnt sveitarstjórnum. Auk þess er álitið sent forseta Alþingis vegna þeirra lagalegu atriða sem þar er fjallað um.

Álit umboðsmanns í máli nr. 9928/2018