02. september 2020

Ábendingar vegna starfsmannamála sveitarfélaga -Lausnarlaun útiloki ekki annað starf síðar

Kvörtun um að einstaklingur kæmi ekki til greina í önnur störf hjá sveitarfélagi þar sem hann hefði þegið svonefnd lausnarlaun vegna starfsloka í kjölfar veikinda og aðrar ábendingar og kvartanir urðu umboðsmanni tilefni til að vekja athygli ráðherra sveitarstjórnarmála og Sambands íslenskra sveitarfélaga á því að tilefni kunni að vera til að taka saman leiðbeiningar fyrir sveitarfélög um framkvæmd ákveðinna þátta í starfsmannamálum þeirra.

Í áliti vegna kvörtunarinnar um þýðingu lausnarlauna, mál nr. 10135/2019, kom fram að umræddur einstaklingur hefði í tilefni af umsókn um starf hjá sveitarfélaginu fengið þau svör að hann kæmi ekki til greina í starf hjá sveitarfélaginu þar sem hann hefði nokkrum árum fyrr látið af störfum vegna veikinda og fengið greidd lausnarlaun samkvæmt kjarasamningi af því tilefni.

Umboðsmaður benti á að athafnir stjórnvalda verði að styðjast við lagaheimildir og byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Ekki væri séð að afstaða sveitarfélagsins ætti sér stoð í lögum og reglum sem gilda um starfsemi sveitarfélagsins eða viðkomandi kjarasamningi. Af orðalagi gagna um starfslok  hjá sveitarfélaginu taldi umboðsmaður auk þess ekki verða ráðið að upplýsingar um varanlegan heilsubrest hefðu legið fyrir þegar viðkomandi sótti að nýju um starf þar. Sveitarfélaginu hefði borið að meta og rannsaka hæfi viðkomandi til að gegna starfinu og að það hefði ekki sýnt fram á að greiðsla lausnarlaunanna leiddi lögum samkvæmt til þess að fyrrverandi starfsmaður gæti ekki komið til greina í annað starf hjá sveitarfélaginu. Sveitarfélagið hefði því ekki fjallað um starfsumsóknina með réttum hætti.

Í ljósi þess að sveitarfélagið hafði leitað eftir og byggt túlkun sína á afstöðu Sambands íslenskra sveitarfélaga til málsins vakti umboðsmaður athygli sambandsins á álitinu. Að sama skapi taldi hann ástæðu til að benda bæði sambandinu og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, vegna stjórnsýslueftirlits þess með sveitarfélögum, á ýmis vafaatriði í starfsmannamálum sveitarfélaga sem hann hefði orðið áskynja við athuganir á kvörtunum að undanförnu. Lúta þau m.a. að meðferð mála við ráðningar, afgreiðslu beiðna umsækjenda um aðgang að gögnum og starfslok. Þessi mál hefðu einnig að einhverju marki komið til úrskurðar hjá ráðuneytinu. Umboðsmaður tók fram að hann hefði veitt því athygli að mismunandi sveitarfélög hefðu kosið að haga málum að þessu leyti til með næsta sambærilegum hætti.

„[Þ]ótt eftirlit ráðherra með sveitar­félögunum taki ekki til Sambands íslenskra sveitarfélaga og í flestum tilvikum ekki til ákvarðana sveitarfélaga í starfsmannamálum eða um gerð kjara­samninga þá kann engu að síður að vera tilefni til þess að ráðuneyti sveitarstjórnarmála beiti sér að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir því að draga saman og birta þau atriði úr úrlausnum kærumála sem lúta að málum starfsmanna sem hafa almenna þýðingu og geta verið til leiðbeiningar fyrir sveitarfélögin í hliðstæðum málum“ segir m.a. í áliti umboðsmanns.

Þá beindi umboðsmaður þeim tilmælum til  þess sveitarfélags sem umrædd kvörtun vegna lausnarlaunanna beindist að, að leita leiða til að rétta hlut viðkomandi og taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu. Að öðru leyti yrði það að vera dómstóla að meta réttaráhrif annmarka sveitarfélagsins á meðferð málsins.

 

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 10135/2019