Forsætisnefnd Alþingis hefur samþykkt að setja Kjartan Bjarna Björgvinsson héraðsdómara sem settan umboðsmann Alþingis, samhliða Tryggva Gunnarssyni kjörnum umboðsmanni, í sex mánuði frá 1. nóvember nk.
Á þeim tíma mun kjörinn umboðsmaður einkum halda áfram vinnu við gerð fræðsluefnis fyrir starfsfólk stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga um þær reglur og starfshætti sem ber að fylgja við meðferð mála og töku ákvarðana. Alþingi ákvað við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2013 að veita sérstaka fjárveitingu til umboðsmanns til að vinna að gerð þessa fræðsluefnis. Umboðsmaður hefur unnið að þessu verkefni á liðnum árum eftir því sem tök hafa verið á og til þess að þoka því enn frekar áfram óskaði kjörinn umboðsmaður eftir því við forsætisnefnd Alþingis að heimild í 3. mgr. 14. gr. laga um umboðsmann Alþingis yrði nýtt. Þar segir að ef kjörnum umboðsmanni eru falin sérstök tímabundin verkefni af hálfu Alþingis geti forsætisnefnd Alþingis, að beiðni kjörins umboðsmanns, samþykkt að setja annan mann til að sinna starfi umboðsmanns samhliða með kjörnum umboðsmanni. Þeir skulu ákveða verkaskiptingu sína á milli. Í samræmi við það mun settur umboðsmaður gegna daglegum störfum umboðsmanns og sinna afgreiðslu mála á tímabilinu. Kjörinn umboðsmaður mun þó ljúka tilteknum málum sem eru á lokastigi á næstunni og taka svo til við fræðsluefnið.
Undanfarin fimm ár hefur Kjartan Bjarni verið héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og þar áður aðstoðarmaður dómara við EFTA-dómstólinn til sex ára. Jafnframt hefur hann m.a. verið varaforseti Félagsdóms, formaður Dómarafélags Íslands, formaður rannsóknarnefndar Alþingis um þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser í kaupum á hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf., varaformaður úrskurðarnefndar um upplýsingamál og dósent í stjórnsýslurétti við lagadeild HR. Kjartan Bjarni þekkir vel til starfa umboðsmanns hvar hann kom upphaflega til starfa sem laganemi og var síðan ráðinn lögfræðingur eftir útskrift árið 2002 og sinnti um tíma starfi skrifstofustjóra. Eftir framhaldsnám var hann sérstakur aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis á árunum 2006 - 2009.