09. febrúar 2021

Erindi stjórnvalda eiga að vera skýr

Erindi stjórnvalda til borgaranna skulu vera nægilega skýr til að þeir geti gert sér grein fyrir réttarstöðu sinni. Þetta á ekki síst við þegar teknar eru íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir.

Settur umboðsmaður vakti athygli Matvælastofnunar á þessu í tilefni af kvörtun yfir ákvörðun stofnunarinnar. Þegar stofnun hefði val um nokkur úrræði samkvæmt tilteknu lagaákvæði, væri ekki nóg að vísa almennt í ákvæðið án þess að tiltaka hvaða úrræði ætlunin væri að beita. Félaginu sem kvartaði hefði ekki heldur verið leiðbeint um kæruleið vegna ákvörðunarinnar eins og rétt hefði verið að gera. Beindi settur umboðsmaður því til Matvælastofnunar að hafa þau sjónarmið sem fram komu í bréfi hans í máli nr. 10889/2020 framvegis í huga.