Endurskoðendaráð getur ekki beitt viðurlögum vegna brota á siðareglum endurskoðenda nema slík ákvörðun styðjist við skýra og ótvíræða lagaheimild.
Settur umboðsmaður hefur vakið athygli ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra á því að lög um endurskoðendur hafi ekki að geyma nægilega skýrar lagaheimildir til þess að endurskoðendaráð geti beitt viðurlögum á borð við áminningu og niðurfellingu réttinda.
Tilefni ábendingarinnar er kvörtun sem laut m.a. að því endurskoðendaráð taldi sig, eftir að ný lög um endurskoðendur tóku gildi, skorta fullnægjandi lagaheimild til að beita endurskoðendur sem kvartað var yfir til ráðsins viðurlögum vegna brota á siðareglum Félags löggiltra endurskoðenda. Settur umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu, m.a. vegna þess að í núgildandi lögum er ekki að finna tilvísun í þær siðareglur.
Í skýringum til umboðsmanns kom fram að endurskoðendaráð hefði vakið athygli ráðuneytisins á þessu og að það teldi brýnt að breyta lögunum sem fyrst. Lögfesta yrði skýr ákvæði þannig að tryggt væri að ráðið gæti beitt viðurlögum við brotum á siðareglum endurskoðenda.
Þar sem ekki liggur fyrir að ráðuneytið hafi brugðist við þessu kom settur umboðsmaður á framfæri ábendingu við ráðherra um að lagaumhverfi endurskoðendaráðs yrði skoðað og þá meðal annars með hliðsjón af alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Óskaði settur umboðsmaður jafnframt eftir að vera upplýstur um hvort ráðuneytið teldi rétt að bregðast við ábendingu hans.
Bréf setts umboðsmanns til ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra