11. mars 2021

Sjúkratryggingum ber að afgreiða erindi skriflega

Umboðsmanni Alþingis barst nýlega kvörtun þar sem móðir gerði athugasemdir við að Sjúkratryggingar Íslands hefðu synjað umsókn um greiðsluþátttöku vegna tannréttinga sonar hennar í kjölfar slyss.

Við athugun sína á kvörtuninni varð settur umboðsmaður þess var að Sjúkratryggingar Íslands höfðu ekki tilkynnt um synjunina með skriflegum hætti.  Varð þetta umboðsmanni tilefni til að vekja athygli sjúkratrygginga á því að stjórnvöldum ber almennt að tilkynna málsaðilum um íþyngjandi ákvarðanir með skriflegum hætti. Sama getur átt við þegar erindi er hafnað. Það að málsaðili viti að erindi hans hafi verið afgreitt og hver niðurstaða þess er, væri höfuðforsenda þess að hann geti brugðist við og leitað réttar síns, með því að leggja fram stjórnsýslukæru eða leita til dómstóla eða umboðsmanns Alþingis.

Beindi settur umboðsmaður því til sjúkratrygginga að hafa framvegis þau sjónarmið sem fram komu í bréfi í hans í huga.

   

  

Bréf setts umboðsmanns til sjúkratrygginga í máli nr. 10797/2020