20. apríl 2021

Meta ber hæfi sem fyrst eftir að brigður eru bornar á það

Mikilvægt er að stjórnvöld taki ákvörðun um hvort starfsmaður sé vanhæfur svo fljótt sem unnt er eftir að athygli er vakin á ástæðum sem kunna að valda vanhæfi. Ef í ljós kemur á lokastigum máls að starfsmaður er vanhæfur getur það tafið meðferð þess óhæfilega.

Settur umboðsmaður bendir á þetta atriði í bréfi til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í kjölfar kvörtunar sem laut meðal annars að því að ráðherrann hefði verið vanhæfur í máli vegna fyrri afskipta af því. Umboðsmaður gerði ekki athugasemdir við endanlega niðurstöðu ráðuneytisins um að ráðherrann væri ekki vanhæfur. Í ljósi þess að ráðuneytið hafði svarað fyrirspurn aðila málsins við meðferð málsins á þann veg að fjallað yrði um sjónarmið hans um vanhæfi ráðherra í úrskurði ráðuneytisins þegar hann lægi fyrir, áréttaði umboðsmaður mikilvægi þess að stjórnvöld tækju ákvörðun um vanhæfi eins fljótt og hægt væri.

Settur umboðsmaður minnti jafnframt á að það samræmdist betur sjónarmiðum að baki sérstökum hæfisreglum stjórnsýslulaga og upplýsingalögum að ákvörðun um hæfi þeirra sem kæmu að meðferð máls væri skráð og kynnt málsaðila eftir því sem tilefni gæfist.

Settur umboðsmaður taldi einnig mega ráða af svörum ráðuneytisins að öðru hverju væri málsmeðferð þar ekki fyllilega í samræmi við kröfur um málshraða. Vísbendingar um þetta hefðu auk þess birst í málum sem komið hefðu til kasta umboðsmanns. Brýndi settur umboðsmaður fyrir ráðuneytinu að bæta úr þessu og minnti á að þegar fyrirsjáanlegt væri að afgreiðsla máls tefðist bæri að skýra viðkomandi frá því, ástæðum þess og hvenær niðurstöðu væri að vænta.

  

  

Bréf setts umboðsmanns í máli nr. 10811/2020