27. apríl 2021

Tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna

Af og til hafa umboðsmanni borist ábendingar og kvartanir þar sem álitamálið er hvort stjórnendur opinberra stofnana hafi með afskiptum sínum og inngripum takmarkað stjórnarskrárbundið tjáningarfrelsi starfs­­manna þeirra. Dæmi um þetta eru tilvik þar sem starfsmaður greinir frá því að stjórnendur hafi tjáð honum að það væri heppilegra að upp­lýsinga­fulltrúi stofnunarinnar svaraði fyrirspurnum um skort á þjónustu stofnunarinnar sem starfsmaðurinn telur að rekja megi til vankanta í starfi og skipulagi starfsemi stofnunarinnar. Í ábendingum til umboðs­manns hefur komið fram að starfsmenn telja að með þessu hafi verið lagður steinn í götu þess að þeir geti tjáð sig um þá vankanta sem þeir telja vera til staðar í starfseminni og um óánægju starfsmanna.

Eitt mál af þessu tagi kom til fyrir nokkru síðan og varð umboðs­manni tilefni til þess að huga að því hvort rétt væri að fjalla almennt í formi frumkvæðismáls um tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna við þessar aðstæður. Þar hafði komið fram í fréttum að stjórnendur sveitarfélags hefðu tilkynnt forstöðumönnum tiltekinna starfseininga að þeir ættu ekki að svara fyrirspurn fjölmiðils um tiltekið málefni heldur vísa þeim á upplýsingafulltrúa sveitarfélagsins. Í svari þess til umboðs­manns kom fram að í þessu tilviki hefði fyrirspurn fjölmiðils verið beint til margra forstöðumanna hliðstæðra starfseininga og því hafi verið talið rétt að taka þessar upplýsingar í heild saman af hálfu sveitarfélagsins og tryggja þannig samræmi og að þær væru réttar. Sveitarfélagið lýsti því að það teldi að með þessu hefði tjáningarfrelsi starfsmanna stofnunarinnar ekki verið settar neinar skorður enda hefðu þetta bara verið tilmæli en ekki reglur. Einu takmarkanirnar sem starfsmenn þurfi að þola á tjáningarfrelsi sínu sé vegna trúnaðar­yfir­lýsinga og skyldna sem megi leiða af lögum.

Að fengnum þessum skýringum taldi umboðsmaður ekki tilefni til þess að fjalla sérstaklega um þetta einstaka mál. Atvik í því hafa þó áfram verið hluti af almennu eftirliti af hálfu umboðsmanns með tilvikum þar sem álitamál kunna að hafa verið uppi um að stjórnendur hins opinbera hefðu takmarkað tjáningarfrelsi starfsmanna. Var þá líka haft í huga að mál af þessum toga hafa í nokkru mæli komið til umfjöllunar hjá umboðsmönnum þjóðþinganna á Norðurlöndunum og þá m.a. í tengslum við skrif opinberra starfsmanna í dagblöðum og á samfélagsmiðlum. Við þetta eftirlit umboðsmanns Alþingis hafa ekki komið fram dæmi í sambærilegu umfangi og að stjórnendur hafi gengið jafn langt í afskiptum sínum og sést hafa í eftirliti umboðsmanna á hinum Norðurlöndunum. Vegna þeirra takmarkana sem verið hafa á því að umboðsmaður Alþingis gæti sinnt frumkvæðisathugunum síðustu ár og þar með beinum athugunum á vettvangi stjórnvalda er þó rétt að fara varlega í að draga of miklar ályktanir af þessu um stöðuna hér á landi að þessu leyti.

Þegar ofangreint mál varð umboðsmanni tilefni fyrirspurnar til stjórnvalda naut ekki við sérstakra lagaákvæða um tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna umfram hið almenna tjáningarfrelsisákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar. Það ákvæði nær til tjáningar opinberra starfsmanna og bindur stjórnvöld í samskiptum við starfsmenn sína. Meginreglan er því sú að opinberir starfsmenn eiga rétt á að láta í ljós hugsanir sínar án afskipta stjórnvalda, með þeim takmörkunum sem fram koma í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir: „Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.“

Á árinu 2019 var nýr kafli um tjáningarfrelsi, þagnarskyldu o.fl. tekinn upp í stjórnsýslulög nr. 37/1993. Þar er nú í 1. mgr. 41. gr. kveðið á um að hver sá sem starfar á vegum ríkis eða sveitarfélaga hafi frelsi til að tjá sig opinberlega um atriði er tengjast starfi hans, svo fremi sem þagnarskylda eða trúnaðar- og hollustuskyldur standi því ekki í vegi.

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laganna er tekið fram að ljóst sé að trúnaðar- og hollustuskyldur komi ekki í veg fyrir að opinberum starfsmönnum sé að ákveðnu marki heimilt að setja fram gagnrýni á atriði innan síns starfssviðs. Af þessu leiði einnig að yfirmönnum stofnana sé óheimilt í skjóli stjórnunarheimilda sinna að setja tjáningarfrelsi starfsmanna sinna þrengri skorður en leiðir af þessum reglum. Þá er áréttað að tjáning opinberra starfsmanna, þar á meðal sú gagnrýni sem þeir setja fram, sé ákaflega mikilvæg hinni lýð­ræðislegu umræðu vegna þeirrar reynslu, innsýnar og sérþekkingar sem þeir búa yfir og til hliðsjónar bent á Hrd. 2005, bls. 5105 í máli nr. 181/2005 og álit umboðsmanns frá 30. desember 2016 í máli nr. 8741/2015, þar sem fram kom að umboðsmaður teldi að leggja yrði til grundvallar að opinberir starfsmenn hefðu almennt talsvert rúmar heimildir til að láta í ljós skoðanir sínar og gagnrýni sem beinist að innri málefnum og starfsemi þeirrar stofnunar sem þeir starfa hjá.

Í ljósi þess að nú hafa verið lögfestar ákveðnar reglur um tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna og heimilar takmarkanir á því hefur umboðsmaður ákveðið að ekki sé rétt að halda áfram þeirri almennu athugun sem lýst var hér að framan í þeim farvegi sem málinu hefur verið markaður. Þannig sé rétt að bíða og sjá hver verður reynslan af lög­festingu nýs ákvæðis um tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna í stjórn­sýslulögunum. Framkvæmd á heimildum opinberra starfsmanna til að tjá sig um málefni á starfssviði þeirra og takmarkanir á þeim í meðförum stjórn­valda heyra undir eftirlit umboðsmanns með stjórnsýslunni og þeir sem telja tilefni til geta komið á framfæri við hann kvörtunum og ábendingum.