Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fór ekki að lögum þegar hún úrskurðaði í tvígang um gjald vegna hreinsunar rotþróa. Annars vegar vísaði nefndin til rangra laga og hins vegar var frávísun hennar á kæru félags, sem hún taldi að gæti ekki átt aðild í málinu, ekki í samræmi við lög.
Kvartað var yfir ofteknum gjöldum fyrir hreinsun rotþróa í frístundabyggð í Hvalfjarðarsveit. Málinu var fyrst skotið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála af formanni félags eignarlóða undir frístundahús á svæðinu og í seinna skiptið af honum persónulega þar sem nefndin taldi félagið ekki eiga lögvarinna hagsmuna að gæta.
Umboðsmaður gerði athugasemd við að nefndin hefði leyst úr síðara málinu með vísan til rangra laga og án þess að fjalla um málið í ljósi þeirra laga sem við áttu. Hvað fyrri úrskurðinn snerti fékk umboðsmaður ekki annað séð en að skilyrði fyrir kæruaðild félagsins hefðu verið uppfyllt. Þá taldi hann að meðferð nefndarinnar á málunum hefði ekki verið í samræmi við leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu hennar og gerði athugasemd við framsetningu á greinargerð Hvalfjarðarsveitar í málinu.
Umboðsmaður beindi því til nefndarinnar að taka málið til meðferðar að nýju ef eftir því yrði leitað og leysa þá úr því í samræmi við sjónarmiðin í álitinu. Þá beindi hann því til Hvalfjarðarsveitar að gæta framvegis betur að hlutverki sínu sem stjórnvald í kærumálum borgaranna.
Álit umboðsmanns í máli nr. 10593/2020