08. september 2021

Spurt um stafrænt pósthólf

Sú stefna er mörkuð í stjórnsýslulögunum að rafræn meðferð mála er heimil en borgurunum er þó ekki skylt að eiga rafræn samskipti við stjórnvöld. Umboðsmaður bendir á þetta og fleira, er lýtur að rafrænum samskiptum stjórnvalda við borgarana, í bréfi til forsætisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis.

Nýverið tóku gildi lög um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda. Í þeim er meðal annars kveðið á um að opinberum aðilum sé skylt að birta gögn í stafrænu pósthólfi. Í kvörtunum til umboðsmanns hefur komið fram að misbrestur hafi orðið á því að stjórnvöld geri fólki grein fyrir því að gögn verði birt rafrænt. Þetta hafi jafnvel orðið til þess að tilvist gagna hafi um hríð farið fram hjá viðkomandi.

Umboðsmaður óskar eftir upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um framkvæmd laganna, m.a. um leiðbeiningar stjórnvalda um notkun stafræns pósthólfs og gjaldtöku í þeim tilvikum sem óskað er eftir birtingu með öðrum hætti. Þá er einnig spurt hvort hugað hafi verið að stöðu þeirra sem af einhverjum ástæðum kunna að standa höllum fæti í þessu tilliti eða hvort það standi til. Óskað er eftir svörum fyrir 25. september nk. Í lok bréfs síns nefnir umboðsmaður að þegar erindinu hafi verið svarað sé æskilegt að halda fund með fulltrúum beggja ráðuneytanna um fyrirhugaða framkvæmd laganna.

 

 

Bréf umboðsmanns til forsætisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis