Vegna breytinga við meðferð umsókna um bráðabirgðadvalarleyfi og tímabundið atvinnuleyfi, frá umsækjendum um alþjóðlega vernd, er ekki tilefni til að umboðsmaður haldi áfram athugun sinni á málinu.
Við meðferð kvörtunar, sem laut m.a. að gjaldtöku fyrir slík leyfi, vakti það athygli umboðsmanns að ráða mátti að almennt væri málum þannig háttað að sækja þyrfti um bráðabirgðadvalarleyfi og atvinnuleyfi á sama tíma. Þannig væri ekki möguleiki að sækja eingöngu um bráðabirgðadvalarleyfi við komu til landsins á meðan viðkomandi væri í atvinnuleit.
Eftir fyrirspurn umboðsmanns upplýsti dómsmálaráðuneytið að þetta yrði skoðað og hefur nú greint frá því að ákveðið hafi verið að hverfa frá þessari framkvæmd. Framvegis verði sótt um kerfiskennitölur fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Útlendingastofnun vinni að útfærslunni í samstarfi við Þjóðskrá og ætlunin sé að nýtt verklag verði komið til framkvæmda fyrir árslok. Þá kom fram í svari ráðuneytisins að megintilgangurinn með umsókn um bráðabirgðadvalarleyfi væri útgáfa kennitölu og þetta yrði því einfaldara, skilvirkara og hagkvæmara fyrir alla hlutaðeigandi. Auk þess mætti efast um réttmæti þess að opinber stofnun tæki við umsókn um bráðabirgðadvalarleyfi frá umsækjanda um vernd og innheimti gjald fyrir, þegar heimild væri fyrir sjálfkrafa útgáfu kerfiskennitölu.
Í ljósi þeirra breytinga sem ráðuneytið lýsti taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að halda athugun málsins áfram. Þar sem breytingarnar væru þó ekki að fullu komnar til framkvæmda yrði fylgst með framvindunni og málið tekið til frekari skoðunar ef efni stæðu til.
Bréf umboðsmanns til dómsmálaráðherra