15. nóvember 2021

Verklag við innritun barna með fötlun í framhaldsskóla til skoðunar

Öll fötluð börn sem óskuðu eftir framhaldsskólavist í haust fengu boð um hana samkvæmt upplýsingum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, auk þess sem vinna við breytingar á verklagi við innritun stendur yfir. Umboðsmaður telur því ekki tilefni til að halda athugun sinni á málinu áfram að svo stöddu en mun fylgjast með framvindu þess.

Skoðun umboðsmanns hófst fyrir nokkru í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla um að fötluðum börnum hefði verið synjað um skólavist í framhaldsskóla. Ráðuneytið greindi frá því að komið hefði fyrir að fötluð börn fengju ekki skólavist í framhaldsskóla og að það tengdist einkum vanda við innritun. Hann fælist meðal annars í því að ráðuneytið og Menntamálastofnun hefðu ekki fengið tæmandi upplýsingar frá grunnskólum um fjölda fatlaðra nemenda sem þyrfti námsvist á starfsbrautum og þjónustuþörf þeirra.

Fyrir skemmstu upplýsti ráðuneytið að breyta ætti innritunarferli í framhaldsskóla, þar með talið á starfsbrautir fyrir fatlaða nemendur. Starfshópur ynni að frekari útfærslu. Ætlunin væri að hann lyki störfum í kringum áramót svo gera mætti nauðsynlegar úrbætur fyrir innritun á næstu haustönn. Í bréfi ráðuneytisins kom einnig fram að allir nýnemar úr grunnskólum sem eftir því sóttust, hefðu fengið tilboð um skólavist í framhaldsskóla við upphaf haustannar, einnig nemendur á starfsbrautum fyrir fatlaða nemendur.

Í ljósi þessa telur umboðsmaður ekki tilefni til að halda athugun málsins áfram að svo stöddu en fylgist með framvindunni. Þá ítrekar hann í bréfi sínu til ráðuneytisins að það hafi í huga þau sjónarmið sem þar eru rakin og varða rétt barna til náms, þ. á m. fatlaðra barna, við þá endurskoðun sem standi nú yfir á verklagi við innritun í framhaldsskóla.

  

  

Bréf umboðsmanns til mennta- og menningarmálaráðuneytisins