02. desember 2021

Álit með og án tilmæla – umboðsmaður á Twitter

Kvartanir til umboðsmanns eru alla jafna annað hvort afgreiddar með áliti umboðsmanns eða svo kölluðu lokabréfi. Í álitum getur verið bent á brot á lögum og reglum og tilmælum beint til stjórnvalda af því tilefni en nú veitir umboðsmaður einnig álit þar sem ekki er tilefni til að beina tilmælum til stjórnvalda.

Síðarnefndu álitin kunna að hafa almenna þýðingu og geta falið í sér leiðbeiningar sem snerta fleiri stjórnvöld en það sem kvartað var yfir og draga má lærdóm af. Langflestum kvörtunum lýkur þó með lokabréfi sem þýðir að ekki sé ástæða til sérstakra athugasemda af hálfu umboðsmanns en þó geta fylgt ábendingar frá honum um eitthvað sem betur má fara. Leitast er við að birta öll lokabréf á heimasíðunni fljótlega eftir að þau eru send út.

Þar sem nú eru gefin út álit í tilteknum málum þótt ekki þyki tilefni til að beina tilmælum til stjórnvalda í þeim fjölgar álitunum sem eru birt á vefsíðu umboðsmanns. Samhliða því er ekki greint frá niðurstöðu þeirra allra með sérstökum fréttum heldur eru þau öll birt í gagnasafninu sem fyrr. Eins og áður er birt frétt á heimasíðunni um öll ný álit þar sem tilefni er til að beina tilmælum til stjórnvalda. Nýverið haslaði umboðsmaður sér völl á Twitter og þar er aftur á móti vakin athygli á öllum nýjum álitum sem birtast, óháð því hvort tilmælum er beint til stjórnvalda eða ekki.

  

  

Álit og bréf

Umboðsmaður Alþingis á Twitter