Þegar úrskurðarnefnd velferðarmála tekur ákvarðanir þar sem niðurstaða er ekki í samræmi við læknisfræðileg gögn máls eru gerðar ríkar kröfur um að fyrir liggi á hvaða upplýsingum og forsendum er byggt.
Þetta á enn frekar við þegar niðurstaða stjórnvalds er aðila máls í óhag líkt og reyndi á í kvörtun til umboðsmanns þar sem nefndin hafði staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar að synja umsókn um endurhæfingarlífeyri. Byggðist niðurstaða nefndarinnar einkum á því að ekki væri tekið á geðrænum vandamálum umsækjanda í endurhæfingaráætlun hans. Af gögnum málsins mátti ráða að þótt viðkomandi ætti sögu um geðrænan vanda þá hefði það ekki staðið í vegi fyrir starfshæfni hans að mati meðferðaraðila. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar var því að mati umboðsmanns ekki í samræmi við upplýsingar frá sérfræðingum sem bentu eindregið til að stoðkerfisverkir væru meginorsök þess að viðkomandi væri óvinnufær en ekki andleg vandamál.
Umboðsmaður minnti á að stjórnvöld væru ábyrg fyrir því að mál væru nægjanlega upplýst áður en þau tækju ákvörðun. Nefndin hefði ekki gætt að því í þessu máli og úrskurður hennar því ekki verið í samræmi við lög. Mæltist hann til að málið yrði tekið til meðferðar á ný ef eftir því yrði leitað og úrlausn þess þá hagað í samræmi við sjónarmiðin í álitinu.
Álit umboðsmanns í máli nr. 10975/2021