Sú almenna framkvæmd örorkunefndar að miða gjald fyrir álitsgerðir sínar við fjölda þeirra slysa sem meta á samræmist ekki lögum. Beindi umboðsmaður því til hennar að taka til skoðunar hvort gjald hefði verið oftekið þegar nefndin krafðist tvöfaldrar greiðslu fyrir eitt álit vegna tveggja slysa.
Umboðsmaður benti á að samkvæmt skaðabótalögum væri gjaldtökuheimild örorkunefndar bundin við álitsgerðir hennar óháð fjölda slysa sem óskað væri mats á og því gæti það viðmið ekki ráðið gjaldtökunni að langstærstu leyti. Ekki hefði verið sýnt fram á að nægileg tengsl væru milli raunverulegs kostnaðar af matsstörfunum og fjölda slysa þannig að sjálfkrafa væri heimilt að innheimta tvöfalt gjald þegar metnar væru afleiðingar tveggja slysa í sömu álitsgerð. Þá hefði ekkert komið fram um að umfjöllun um tvö slys hefði útheimt tvöfalda vinnu nefndarinnar í þessu tiltekna máli.
Umboðsmaður gerði einnig athugasemdir við svör dómsmálaráðuneytisins vegna málsins auk þess sem þau hefðu borist seint. Tæplega hálft ár hefði liðið þar til svar við fyrsta fyrirspurnabréfi barst og margítreka hefði þurft síðara erindi og tæpa sjö mánuði tekið að fá svar við því frá ráðuneytinu. Vegna þessa seinagangs hefði athugun á málinu dregist úr hófi.
Álit umboðsmanns í máli nr. 10276/2019