01. febrúar 2022

Spurt um skipun og setningu ráðuneytisstjóra

Umboðsmaður hefur spurt ráðherra út í skipun og setningu tveggja ráðuneytisstjóra nú í lok janúar. Annars vegar er háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra beðinn um skýringar á tímabundinni setningu ráðuneytisstjóra og hins vegar er ferðamála-, menningar- og viðskiptaráðherra spurður um skipun ráðuneytisstjóra.

Í frétt stjórnarráðsins, þar sem greint var frá skipun ráðuneytisstjóra nýs menningar- og viðskiptaráðuneytis, kom fram að ákvörðunin væri reist ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem kveðið er á um heimildir til flutnings embættismanna ríkisins milli embætta. Í bréfi umboðsmanns til ráðherrans er rakið að í heimildinni felist að stjórnvald sem skipað hefur mann í embætti geti samþykkt að hann flytjist í annað embætti er lýtur öðru stjórnvaldi. Þá bendir umboðsmaður á að Alþingi hafi kosið ráðuneytisstjórann í embætti ríkisendurskoðanda árið 2018 og heyri hann samkvæmt lögum undir það og sé sjálfstæður og engum háður í störfum sínum. Óskað er eftir skýringum á því á hvaða lagagrundvelli ákvörðun um skipunina, án auglýsingar, sé reist. Hafi það verið gert á grundvelli áðurnefnds ákvæðis um flutning embættismanna milli embætta er spurt um hvaða forsendur og lagasjónarmið bjuggu þar að baki. 

Í bréfi umboðsmanns til ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar segir meðal annars að í ljósi þess að verið sé að setja á fót nýtt ráðuneyti verði ekki annað ráðið en að um nýtt embætti sé að ræða. Því spyr hann hvort það hafi verið auglýst laust til umsóknar og ef ekki þá biður hann um skýringar á því á hvaða lagagrundvelli það hafi verið gert.  

Eru ráðherrarnir beðnir um svör fyrir 12. febrúar nk.

  

   

Bréf umboðsmanns til ferðamála-, menningar- og viðskiptaráðherra

Bréf umboðsmanns til háskóla, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra