05. maí 2022

Málsmeðferð við flutning fanga úr opnu fangelsi í lokað ekki í samræmi við lög

Ekki var gætt að viðhlítandi málsmeðferðarreglum þegar ákveðið var að fangi skyldi fluttur úr opnu fangelsi í lokað. Ef slíkur flutningur kemur til vegna brots fanga sem varðar agaviðurlögum samkvæmt lögum um fullnustu refsinga eru gerðar strangari kröfur en ella, bæði í þágu réttaröryggis og vegna íþyngjandi eðlis hennar.

Á þetta reyndi í máli fanga sem kvartaði til umboðsmanns eftir að hafa verið fluttur úr opnu fangelsi í lokað með vísan til þess að hann hefði brotið gegn samkomulagi sem hann hefði gert við fangelsisyfirvöld um afplánun í opnu fangelsi. Var ákvörðunin rökstudd annars vegar með vísan til brots á reglum fangelsisins um netnotkun og hins vegar viðhorfs hans til fangelsisins og skilyrða fyrir að fá að afplána í opnu fangelsi.

Umboðsmaður benti á að þótt Fangelsismálastofnun hefði svigrúm til mats þegar ákveðið væri hvar fangi skyldi afplána, sem og hvernig bregðast skyldi við brotum fanga á lögum og reglum í afplánun, þá skipti máli hvernig slíkar ákvarðanir kæmu til og í hvaða lagalega farveg mál væru sett. Ef með einhverjum hætti mætti rekja flutning, úr opnu fangelsi í lokað, til háttsemi vegna brota á reglum þannig að tilefni væri til að beita agaviðurlögum, þyrfti að gæta sérstaklega að málsmeðferðarreglum. Jafnvel þótt fleiri ástæður kynnu að koma til veitti það eitt og sér stjórnvöldum ekki heimild til að víkja frá reglum um agabrot og agaviðurlög sem mælt væri fyrir um í VII kafla laga um fullnustu refsinga.

Í áliti sínu tekur umboðsmaður ekki afstöðu til efnislegrar niðurstöðu stjórnvalda í málinu en bendir á að ákvörðun um flutning fangans frá Sogni á Litla-Hraun hafi ekki verið sett í viðeigandi farveg og fanginn því ekki notið þess réttaröryggis sem honum hafi borið. Úrskurður dómsmálaráðuneytisins sem staðfesti ákvörðunina hafi þar með ekki verið í samræmi við lög.

  

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 10771/2020