10. júní 2022

Óheimil ráðning skólastjóra

Ákvörðun um ráðningu skólastjóra var í ósamræmi við lög og samþykkt um stjórn sveitarfélags en bæði sveitarstjóra og oddvita skorti vald til að ráða í starfið. Einungis sveitarstjórnin var bær til þess að taka endanlega ákvörðun.

Meðal annars var kvartað til umboðsmanns yfir að hefði hvorki fjallað um málið né tekið afstöðu til þess hver væri hæfastur fyrr en eftir að tilkynnt hefði verið um ráðninguna.

Í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins  var ekki að finna ákvæði sem beinlínis skilgreindu æðstu stjórnunarstöður. Tiltekin ákvæði um ráðningu í æðstu stjórnunarstöður, til viðbótar sveitarstjóra, báru þó með sér að stöður skólastjóra væru hluti af stjórnkerfi sveitarfélagsins. Af þeirri framkvæmd sem hafði áður verið viðhöfð við ráðningu skólastjóra og með hliðsjón af bæði samþykktinni og sveitarstjórnalögum varð ekki séð að sveitarstjórnin hefði framselt ráðningarvald sitt í þessum efnum til annars aðila á hennar vegum. Því yrði að líta þannig á að einungis sveitarstjórnin væri bær til þess að taka endanlega ákvörðun um ráðninguna. Með hliðsjón af því að sveitarstjóri tilkynnti umsækjendum um hver yrði ráðinn, tveimur vikum áður það var tekið fyrir á sveitarstjórnarfundi, taldi umboðsmaður að ákvörðunin hefði verið tekin áður en sveitarstjórnin hefði tekið afstöðu til hennar. Bæði sveitarstjóra og oddvita hefði skort vald til þess að taka hina endanlega ákvörðun.

Þrátt fyrir annmarka á meðferð málsins taldi umboðsmaður ólíklegt að það leiddi til ógildingar á ráðningunni. Allt að einu mæltist hann til þess að sveitarfélagið leitaði leiða til að rétta hlut viðkomandi. Að öðru leyti yrði það að vera dómstóla að meta réttaráhrif þessa ef til kæmi.

  

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 11216/2021