23. júní 2022

Synjun á beiðni um endurgreiðslu bílastæðagjalds ekki byggð á fullnægjandi lagagrundvelli

 

Verulegur annmarki var á ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um að hafna því að endurgreiða bílastæðagjald. Ekki varð séð að þær reglur sem sjóðurinn kvaðst hafa byggt ákvörðun sína á hefðu í reynd verið lagðar til grundvallar upphaflegri niðurstöðu hans.

 

 

Umboðsmaður benti á að samkvæmt lögum um innheimtu opinberra skatta og gjalda bæri stjórnvöldum að endurgreiða gjöld sem hefðu verið ofgreidd. Meðal annars í þeim tilvikum þar sem greitt hefði verið umfram lagaskyldu af ástæðum sem væru greiðandanum sjálfum um að kenna. Leggja yrði þann skilning í beiðni viðkomandi að hún hefði talið sig hafa greitt umfram lagaskyldu.

Í skýringum Bílastæðasjóðs til umboðsmanns var byggt á því að bifreið viðkomandi hefði að hluta til verið lagt inn á gjaldskyldu stæði og því hefði borið að greiða fyrir það í samræmi við þágildandi reglur Reykjavíkurborgar. Umboðsmaður tók fram að af ákvörðun Bílastæðasjóðs yrði ekki ráðið að byggt hefði verið á þeim reglum. Þá yrði ekki annað séð en að rannsókn sjóðsins á því hvort bifreiðinni hefði verið lagt inn á gjaldskyldu stæði hefði farið fram eftir að ákveðið hefði verið hafna endurgreiðslu gjaldsins. Yrði því að líta svo á að ákvörðun sjóðsins um að endurgreiða ekki gjaldið væri nú studd við annan lagagrundvöll en upphaflega auk þess sem aflað hefði verið nýrra upplýsinga um málsatvik.

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 11356/2021