Ráðuneyti sveitarstjórnarmála var ekki bært að lögum til að kveða upp úrskurð vegna kæru foreldra yfir að Hafnarfjarðarbær synjaði þeim um greiðslu matarkostnaðar fyrir barn þeirra. Barnið var í Barnaskóla Hjallastefnunnar og með vísan til jafnræðissjónarmiða vildu foreldrarnir njóta samskonar ívilnunar og veitt var á tilteknu tímabili í grunnskólum sveitarfélagsins þegar almennt samkomubann gilti vegna COVID-19.
Umboðsmaður benti á að ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar hefði lotið að málefnum grunnskóla og félli því undir kæruheimild grunnskólalaga og þar með ráðherra menntamála. Ráðuneyti sveitarstjórnarmála hefði ekki verið bært, á grundvelli almennrar kæruheimildar sveitarstjórnarlögum, til að taka afstöðu til kæru foreldranna. Það hefði átt að framsenda hana til ráðuneytis menntamála. Í ljósi eftirlitshlutverks ráðuneyta og mikilvægis samráðs milli þeirra, ef óvissa kann að vera um valdmörk, taldi umboðsmaður einnig að það hefði verið í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefði óskað eftir afstöðu ráðuneytis menntmála áður en það afgreiddi kæruna.
Beindi umboðsmaður því til innviðaráðuneytisins, sem nú fer með sveitarstjórnarmál, að taka kæruna til meðferðar á ný ef eftir því yrði leitað, afturkalla þá fyrrgreindan úrskurð og senda kæruna áfram til mennta- og barnamálaráðuneytisins.
Álit umboðsmanns í máli nr. 11314/2021.