09. ágúst 2022

Stjórnarmenn stofnunar töldust ekki til starfsmanna hennar

Sjúkratryggingar Íslands fóru ekki að lögum um hópuppsagnir þegar fjórtán stjórnendum var sagt upp vegna skipulagsbreytinga. 

Þrír starfsmenn kvörtuðu yfir uppsögnunum, meðal annars á þeim forsendum að ákvæðum laga um hópuppsagnir hefði ekki verið fylgt. Stofnunin taldi lögin ekki eiga við þar sem þessir fjórtán hefðu ekki náð 10% af heildarfjölda starfsmanna. Að stjórnarmönnum meðtöldum hefðu starfsmenn verið 143. 

Umboðsmaður benti á að stjórnarmennirnir væru skipaðir af ráðherra til ákveðins tíma og þar af leiðandi óháðir stjórnunarvaldi forstjóra. Þótt þeir fengju greidda þóknun af rekstrarfé stofnunarinnar væri ekki unnt að líta svo á að þeir lytu stjórn nokkurs innan hennar í skilningi laga um hópuppsagnir. Sjúkratryggingar hefðu því ofmetið fjölda starfsmanna um a.m.k. fimm. Af þeim sökum hefði borið að fara að ákvæðum laganna. Uppsagnirnar hefðu því, að þessu leyti, ekki verið í samræmi við lög.

Mæltist umboðsmaður til þess að leitað yrði leiða til að rétta hlut þremenninganna en að öðru leyti yrði það að vera verkefni dómstóla að meta réttaráhrif þessa annmarka ef málin yrðu lögð í þann farveg. Þá sendi hann álitið til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og innviðaráðuneytisins sem fara með vinnumál, starfsmannamál ríkisins og stjórnsýslu sveitarfélaga.

   

    

Álit umboðsmanns í máli nr. 11320/2021