12. ágúst 2022

Óheimilt var að leggja fyrir persónuleikapróf á ensku

Í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls kemur fram að íslenska sé opinbert mál stjórnvalda. Á þetta lagaákvæði reyndi þegar persónuleikapróf á ensku var lagt fyrir umsækjendur um starf varðstjóra hjá lögreglustjóranum á Austurlandi.

Umboðsmaður benti á að þröngar undantekningar væru frá því að nota íslensku hvarvetna í opinberri stjórnsýslu. Persónuleikapróf á ensku hefði að einhverju leyti reynt á hversu gott vald umsækjendur hefðu á sérhæfðum orðaforða erlends tungumáls. Það hefði gert meiri kröfur til tungumálakunnáttu en auglýsing um starfið hefði gert ráð fyrir og slík krafa ekki verið í málefnalegum tengslum við að gegna því. Þá höfðu umsækjendurnir þrír starfað undanfarin ár hjá embættinu og því hefði mátt ætla að haldbær vitneskja hefði legið þar fyrir um þá persónulegu eiginleika þeirra sem einkum skiptu máli í þessu tilliti.

Niðurstaða umboðsmanns var að óheimilt hefði verið að leggja fyrir persónuleikapróf á ensku, nema umsækjendur hefðu samþykkt slíka tilhögun fyrir fram og þá án þrýstings en leggja yrði til grundvallar að svo hefði ekki verið í tilviki þess sem kvartaði. Sá annmarki væri þó ekki líklegur til að breyta niðurstöðu ráðningarferlisins þannig að ástæða væri til að beina því til lögreglustjórans að rétta hlut viðkomandi.

  

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 11505/2022