Auglýsing um starf sjúkraliða hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands var ekki fyllilega í samræmi við markmið reglna um efni auglýsinga um opinbert starf og braut því gegn vönduðum stjórnsýsluháttum.
Þetta er niðurstaða umboðsmanns vegna kvörtunar yfir ráðningu í starfið. Taldi hann ekki tilefni til að gera athugasemdir við það mat stofnunarinnar að sá umsækjandi sem var ráðinn hefði uppfyllt þau lágmarksskilyrði um menntun sem tilgreind voru í auglýsingunni.
Aftur á móti hefði auglýsingin ekki verið nægilega skýr og misvísandi upplýsingar komið fram í henni. Þær kynnu að hafa leitt til þess að einhver sem uppfylltu hæfniskröfurnar hefðu hætt við að sækja um þar sem þau hefðu ekki framhaldsmenntun líkt og hæglega hefði mátt ætla af fyrirsögn auglýsingarinnar. Mæltist umboðsmaður því til að Heilbrigðisstofnun Norðurlands gætti framvegis að sjónarmiðunum í álitinu.
Álit umboðsmanns í máli nr. 11531/2022