09. nóvember 2022

Tvær fyrirspurnir vegna brottvísunar útlendinga

Umboðsmaður hefur óskað eftir upplýsingum frá kærunefnd útlendingamála annars vegar og ríkislögreglustjóra hins vegar vegna brottvísunar umsækjenda um alþjóðlega vernd sem kom til framkvæmda í síðastliðinni viku.

Af hálfu embættis ríkislögreglustjóra hefur komið fram að nauðsynlegt sé að fara yfir verklag lögreglunnar þegar fatlaður maður var, við framkvæmd brottvísunar, tekinn úr hjólastól og fluttur í lögreglubíl sem ekki var sérútbúinn með tilliti til þarfa hans. Í ljósi þessa og eftirlitshlutverks umboðsmanns með aðbúnaði frelsissviptra er ríkislögreglustjóri beðinn að upplýsa um hvort og þá til hvaða ráðstafana hafi verið gripið af þessu tilefni.

Þá er kærunefnd útlendingamála spurð um nokkur atriði vegna samskipta við talsmann umsækjanda um alþjóðlega vernd en umsækjandinn var fluttur úr landi á grundvellli úrlausnar nefndarinnar um brottvísun. Tilefnið er frétt þar sem talsmaðurinn kvaðst hafa verið staddur erlendis þegar honum hafi verið send úrlausn nefndarinnar í málinu. Hann hafi ekki getað nálgast skjalið þegar í stað því rafræn skilríki hafi ekki virkað þar sem hann hafi verið staddur. Þegar hann hafi getað kynnt sér niðurstöðuna hafi frestur til að óska eftir frestun réttaráhrifa ákvörðunar nefndarinnar um brottvísun verið útrunninn. Í ljósi þessa óskar umboðsmaður eftir upplýsingum frá nefndinni m.a. um hvernig framkvæmd er snertir umboð til talsmanna og birtingu úrlausna er almennt háttað og hvort nefndin kannist við það vandamál sem lýst er í fréttinni. Að lokum er beðið um afstöðu nefndarinnar til þess hvernig reglugerðarheimild til rafrænnar birtingar úrlausna hennar horfi við, ef talsmaður greini frá því að tæknilegir örðugleikar komi í veg fyrir að hann geti nálgast skjöl þar að lútandi með rafrænum hætti.

Óskað er svara fyrir 30. nóvember.

  

 

Bréf umboðsmanns til kærunefndar útlendingamála

Bréf umboðsmanns til ríkislögreglustjóra