02. desember 2022

Breytingar fyrirhugaðar á úthlutunarreglum Menntasjóðs námsmanna og athugun því lokið

Í ljósi fyrirhugaðra breytinga á úthlutunarreglum Menntasjóðs námsmanna er ekki tilefni til að halda áfram athugun á tilteknum ákvæðum þar sem kveðið er á um rafræna málsmeðferð.

Tilefni athugunarinnar var kvörtun þar sem fram kom að lánþegar sjóðsins þyrftu að undirrita skuldabréf með rafrænum hætti fyrir hverja útborgun láns. Óskaði umboðsmaður eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort ákvæðin ættu sér fullnægjandi stoð í lögum. Vísaði hann til úrskurðar málskotsnefndar Menntasjóðs námsmanna sem hefði komist að þeirri niðurstöðu í júlí 2021 að óheimilt hefði verið að krefjast þess að skuldabréf væri undirritað með rafrænum hætti. Jafnframt minnti umboðsmaður á að af stjórnsýslulögum leiddi að ekki væri heimild til að einskorða meðferð stjórnsýslumála við rafræna meðferð.

Í svari frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu er greint frá því að í kjölfar úrskurðar málskotsnefndarinnar hafi framkvæmd sjóðsins breyst þannig að lánþegum sé heimilt að koma í afgreiðslu hans og undirrita skuldabréf. Jafnframt sé þess gætt að námsmenn geti komið upplýsingum á framfæri og undirritað skjöl óháð getu þeirra til að undirrita rafrænt eða afstöðu þeirra til slíks. Til standi að breyta úthlutunarreglunum til samræmis við lög.

Ekki er því ástæða að halda athugun umboðsmanns áfram en þegar breytingarnar hafa náð fram að ganga óskar hann eftir upplýsingum frá ráðuneytinu þar að lútandi.

  

  

Bréf umboðsmanns til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

Bréf háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis

Lokabréf umboðsmanns í máli nr. 11884/2022