05. janúar 2023

Kvörtunum fækkaði lítillega milli ára

Kvörtunum til umboðsmanns fækkaði lítillega á nýliðnu ári miðað við árið á undan og urðu 528 samanborið við 570 árið áður. Þá voru 556 mál afgreidd sem er ívið meira en nam fjölda kvartana og leiddi 61 þeirra til álits, þar af 20 án tilmæla til stjórnvalda.

Að meðaltali bárust umboðsmanni 44 kvartanir í mánuði í fyrra. Langflestar á fyrsta fjórðungi ársins eða um og yfir 60 í mánuði. Fæstar voru þær á þriðja ársfjórðungi alls 105. Athygli vekur hve skarpt kvörtunum fjölgaði svo í desember frá næstu fimm mánuðum á undan. Þá bárust 49 en voru fæstar í júlí eða 31 sem er nákvæmlega sami fjöldi í þeim mánuði og árið á undan. Meðalfjöldi kvartana undanfarin þrjú ár er 546 en næstu fimm ár þar á undan voru þær 408 að meðaltali.

Umboðsmaður skilaði 59 álitum í 61 máli þar sem í einu tilfelli voru þrjú mál sameinuð í eitt álit. Þetta er sambærilegt við árið á undan. Þriðjungur álitanna var án tilmæla til stjórnvalda en þau fela, líkt og álit með tilmælum, einnig í sér niðurstöðu sem af einhverjum ástæðum hefur almenna þýðingu eða leiðbeiningargildi.

  

Kvartanir og afgreidsla 2022.png

  

Af málunum 78 sem biðu afgreiðslu um áramót voru 46 til athugunar hjá umboðsmanni, 6 voru til umsagnar hjá þeim sem kvartaði og beðið var svara frá stjórnvöldum í 26 málum. Á liðnu ári var tæplega 60% kvartana lokið innan mánaðar frá því að þær bárust, tæplega 80% innan tveggja mánaða og nálægt 90% á þremur mánuðum.

   

Afgreidsluhradi 2022.png

  

Frumkvæðismál

Sem dæmi um frumkvæðismál sem lokið var á árinu, ýmist með áliti eða lokabréfi, má nefna athugun á samkomutakmörkunum vegna COVID-19. Athugun á framkvæmd og grundvelli vistunar sjúklinga á öryggisgangi réttargeðdeildar á Kleppi á Landspítala, athuganir vegna tímabundinnar setningar ráðuneytisstjóra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis og skipunar ráðuneytisstjóra menningar- og viðskiptaráðuneytis.

Á grundvelli frumkvæðisheimilda fylgdist embættið einnig áfram með ýmsum atriðum við framkvæmd rafrænnar stjórnsýslu á vegum stjórnvalda, ekki síst m.t.t. þeirra sem af einhverjum ástæðum standa höllum fæti gagnvart rafrænum miðlum. Það eftirlit hefur snúið að reglusetningu og stefnumótun ráðuneyta en einnig hafa afmörkuð álitaefni við framkvæmd einstakra stjórnvalda verið tekin upp sem sérstök mál. Sem dæmi um hið síðarnefnda má nefna frumkvæðisathugun viðvíkjandi framkvæmd Vegagerðarinnar á „Loftbrú“ (greiðsluþátttöku íslenska ríkisins í flugfargjöldum íbúa sem eiga lögheimili á skilgreindum svæðum á landsbyggðinni) og athugun á nýju kerfi ríkislögreglustjóra við útgáfu skotvopnaleyfa.

  

Starfsemi OPCAT árið 2022

Farið var í sex heimsóknir á grundvelli OPCAT-eftirlits umboðsmanns þar af tvívegis á Litla-Hraun. Í upphafi árs voru aðstæður kannaðar þar eftir að fregnir bárust af einangrun og öðrum takmörkunum sem teknar hefðu verið upp eftir COVID-19 smit meðal fanga. Seinni heimsóknin, undir lok árs, fól í sér allsherjarúttekt og stóð yfir í þrjá daga. Í mars var fangelsið á Kvíabryggju skoðað og í maí var farið í  fangageymslur lögreglunnar á Norðurlandi eystra bæði á Akureyri og Siglufirði, geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri og öryggisvistun á vegum Akureyrarbæjar.

Birtar hafa verið skýrslur um allar heimsóknirnar nema á Litla-Hraun og í öryggisvistunina á Akureyri. Þær eru í vinnslu. Jafnframt var á árinu birt skýrsla um heimsókn á bráðageðdeild Landspítala sem farin var seinni part árs 2021.

Á grundvelli OPCAT-eftirlitsins spurðist embættið einnig fyrir um afmörkuð atriði vegna framkvæmdar við flutning brottvísaðra manna sem fram fór í nóvember 2022. Þá hóf Landspítali skoðun á verklagi vegna útiveru nauðungarvistaðra sjúklinga í geðþjónustu á deild 33A eftir fyrirspurn frá umboðsmanni sem send var í kjölfar ábendingar um málið.