27. febrúar 2023

Heilbrigðisráðherra spurður um aðgerðir til að bregðast við töfum hjá landlækni

Umboðsmaður hefur óskað eftir nánari upplýsingum frá heilbrigðisráðherra um hvað felist í aðgerðum sem ætlað er að hraða meðferð kvartana hjá embætti landlæknis og vinna á þeim fjölda sem þar er nú til meðferðar. 403 kvartanir voru óafgreiddar 21. febrúar sl. samanborið við 341 í lok árs 2021.

Ef fyrir liggur að viðvarandi ástand, í andstöðu við lög, hafi skapast í starfsemi stofnunar verður að jafnaði gengið út frá því að þeim ráðherra sem fer með yfirstjórn viðkomandi málaflokks beri skylda til að gera ráðstafanir til úrbóta. Í kjölfar þess að landlæknir greindi frá því í svörum við fyrirspurn umboðsmanns að málsmeðferðartími kvartana væri almennt afar langur, og að tafirnar stöfuðu fyrst og fremst af auknum málafjölda og skorti á fé, spurði umboðsmaður heilbrigðisráðherra hvort og þá hvaða ráðagerðir væru uppi til að bæta úr þessu.

Þar sem ljóst er að vandinn við afgreiðslu mála hjá landlækni er bæði umfangsmikill og ekki á undanhaldi, vill umboðsmaður fá ítarlegri upplýsingar um hvort og þá hvenær heilbrigðisráðherra telji þær aðgerðir sem boðaðar voru í svari ráðuneytisins í janúar komi til með að skila árangri. Þá er óskað eftir að ráðherra útskýri frekar hvað felist í áætlun um eflingu starfsemi landlæknis er lýtur að rannsóknum á alvarlegum atvikum og meðferð kvartanamála sem og hvenær áætlað sé að þær aðgerðir komi til framkvæmda. Óskað er svara fyrir 11. mars nk.

  

  

Bréf umboðsmanns til heilbrigðisráðherra 24. febrúar 2023

Svar heilbrigðisráðuneytis við fyrirspurn umboðsmanns 31. janúar 2023

Bréf umboðsmanns til heilbrigðisráðherra 23. desember 2022