03. mars 2023

Fjármálaráðherra spurður út í sölu á hlut í Íslandsbanka

Í kjölfar þess að Alþingi lauk umfjöllun sinni um skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hefur umboðsmaður óskað eftir tilteknum skýringum og upplýsingum frá fjármálaráðherra um söluna.

Almennt fjallar umboðsmaður ekki um mál samtímis því sem þau eru til meðferðar hjá Alþingi á grundvelli eftirlitshlutverks þess og hefur því haldið að sér höndum vegna málsins fram að þessu. Í bréfi hans til fjármálaráðherra sem sent var í gær kemur fram að ekki verði ráðið að í skýrslu Ríkisendurskoðunar hafi verið fjallað sérstaklega um sölu á hlutum í Íslandsbanka til Hafsilfurs ehf., félags í eigu föður ráðherra, eða álitamál um hæfi hans í því sambandi. Þá verði ekki heldur séð að með umfjöllun sinni um skýrsluna hafi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tekið rökstudda afstöðu til slíkra atriða. Bent er á að hinum sérstöku hæfisreglum stjórnsýslulaga sé ekki aðeins ætlað að koma í veg fyrir að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á efni stjórnvaldsákvarðana heldur sé þeim einnig ætlað að stuðla að því að almenningur og hlutaðeigandi geti treyst því að stjórnvöld leysi úr málum á hlutlægan hátt.

Óskar umboðsmaður því eftir að fjármálaráðherra upplýsi og skýri hvort og þá með hvaða hætti reglum stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi hafi verið fullnægt að því er snertir söluna á hlutum ríkisins í bankanum til Hafsilfurs ehf. Einnig er spurt hvort og þá hvernig undirbúningi sölumeðferðar hlutar ríkisins í Íslandsbanka hafi verið hagað þannig að tryggt væri að gætt yrði reglna stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi þegar kæmi að ákvörðunum ráðherra um hvort tilboð skyldu samþykkt eða þeim hafnað. Þá er óskað rökstuddrar afstöðu ráðherra til þess hvort og þá að hvaða marki hann hafi sem ráðherra borið lagalega og stjórnskipulega ábyrgð á því að söluferlið færi fram í samræmi við lög.

Beðið er um svör fyrir 25. mars.

  

  

Bréf umboðsmanns til fjármálaráðherra