29. mars 2023

Samskiptamöguleikar fanga við stjórnvöld og umboðsmann til skoðunar

Umboðsmaður vill fá að vita hvort komið sé í veg fyrir að fangar geti hringt í fangelsismálayfirvöld úr fangelsum landsins eða möguleikar þeirra til þess skertir. Einnig hvort bréf fanga til umboðsmanns og stjórnvalda séu lesin.

Fyrir fimm árum fékk umboðsmaður þær upplýsingar frá Fangelsismálastofnun að fangar ættu að hafa greiðan aðgang að starfsmönnum stofnunarinnar og þeim væri heimilt að hafa samband í gegnum síma, bréfleiðis og með öðrum hætti. Var því ekki talin þörf á frekari athugun þá. Umboðsmanni hafa hins vegar borist ábendingar síðan frá föngum um að þeim reynist erfitt að ná sambandi við fangelsismálayfirvöld í síma. Af þeim mátti ráða að það kynni jafnvel að hafa verið tekið fyrir slík milliliðalaus samskipti.

Í eftirlitsheimsókn í fangelsið Hólmsheiði í síðustu viku prófaði starfsfólk umboðsmanns að hringja í fangelsismálayfirvöld úr símum sem fangar hafa aðgang að bæði á deildum og í almennu rými. Eftir því sem næst varð komist var lokað fyrir símhringingar af deildum til bæði Fangelsismálastofnunar og dómsmálaráðuneytis. Þá virtist ekki hægt að hringja út fyrir fangelsið í almenna rýminu nema fyrir milligöngu fangavarða. Sá sími er í opnu rými sem ekki virðist fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til aðstöðu vegna einkasamtala. Aukinheldur væru fangar oft spurðir um erindi sitt við stjórnvaldið svo hægt væri að meta hvort það væri þörf á símtali. Umboðsmaður hefur óskað eftir skýringum á þessu sem og hvort svona hátti til í öðrum fangelsum landsins en honum hefur verið bent á að sú sé raunin á Litla-Hrauni.

Þá kom einnig á daginn að bréf fanga til umboðsmanns hefðu verið lesin af fangavörðum og greint var frá því að fangar gætu ekki sent honum eða stjórnvöldum erindi í lokuðu umslagi. Minnt er á að samkvæmt lögum skal ekki skoða bréfaskipti milli fanga og lögmanns, opinberra stofnana, umboðsmanns Alþingis og fleiri. Í heimsókn umboðsmanns á Litla-Hraun í fyrra virtist líka vera misbrestur þar við meðhöndlun bréfa frá föngum og vill hann því fá nánari upplýsingar.

Stjórnvöld eru beðin um skýringar fyrir 12. apríl og þar á meðal hvernig þetta fyrirkomulag samrýmist hlutverki og skyldum fangelsa, Fangelsismálastofnunar og dómsmálaráðuneytisins á grundvelli laga um fullnustu refsinga, almennum reglum um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda og vönduðum stjórnsýsluháttum.  

  

  

Bréf umboðsmanns til dómsmálaráðuneytis, Fangelsismálastofnunar og forstöðumanns fangelsanna