Undanfarna daga heimsóttu umboðsmaður og starfsfólk hans sjö búsetuúrræði Klettabæjar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er liður í OPCAT-eftirliti hans með stöðum þar sem frelsissviptir dvelja.
Hjá Klettabæ er veitt sérhæfð þjónusta fyrir börn og ungmenni með margþættan vanda. Markmiðið er að mæta hverju þeirra með tilliti til þarfa þess og bjóða eins þroskavænlegt umhverfi og mögulegt er hverju sinni, að því er segir á vef Klettabæjar. Einnig að stuðla að jöfnum tækifærum ungs fólks til þátttöku og lífsgæða í samfélaginu.
Á hverjum stað sem heimsóttur var býr eitt ungmenni við sólarhringseftirlit. Aðbúnaður þeirra og aðstæður voru skoðuð og rætt við þau sem það vildu, svo og starfsfólk og stjórnendur. Líkt og endranær verðu gefin út skýrsla um niðurstöður heimsóknarinnar.