09. ágúst 2023

Óheimilt að binda tilvísun til sérfræðilæknis við að læknir í heimabyggð gefi hana út

Skilyrði reglugerðar um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innanlands, sem áskilur að læknir í heimabyggð verði að vísa sjúkratryggðum til sérfræðilæknis til að sjúkratryggingar taki þátt í ferðakostnaði, samrýmist ekki lögum.

Úrskurðanefnd velferðarmála komst að öndverðri niðurstöðu vegna kvörtunar manns sem læknir utan hans heimabyggðar hafði vísað til sjúkdómsmeðferðar á þriðja staðnum. Byggðist synjunin á því að læknir í heimabyggð hefði ekki gefið tilvísunina út líkt og kveðið væri á um í reglugerðinni. Það skilyrði var byggt á sjónarmiði um að greiðsluþátttaka í ferðakostnaði kæmi aðeins til greina ef heilbrigðisþjónustan væri ekki í boði í heimabyggð hins sjúkratryggða.

Umboðsmaður benti á að almennt hafa sjúklingar rétt til að leitast eftir heilbrigðisþjónustu hvar sem er á landinu. Rétti sjúklinga til að leita læknis utan heimabyggðar hefði því verið raskað umfram nauðsyn með reglugerðarákvæðinu. Það væri því andstætt lögum sem og úrskurður nefndarinnar í málinu enda ekki sýnt fram á að læknir utan heimabyggðar gæti ekki aflað upplýsinga um hvort þjónusta væri í boði í heimabyggð. Mæltist umboðsmaður til að nefndin tæki erindi mannsins aftur til meðferðar ef eftir því yrði leitað. Þá beindi hann því til heilbrigðisráðuneytisins að hafa álitið til hliðsjónar við endurskoðun reglugerðarinnar.

  

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 11723/2022