Umboðsmaður og starfsfólk í OPCAT-teymi hans skoðaði í dag og í gær aðbúnað og aðstæður aldraðra sem vistaðir eru á Þinghóli, sérstakri einingu fyrir fólk með heilabilunareinkenni, á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi.
Heimsóknin er liður í eftirliti með stöðum þar sem frelsissviptir dvelja og sú fyrsta á hjúkrunarheimili, en innan þeirra eru oft sérstakar lokaðar einingar eða deildir. Átta manns dvelja á Þinghóli og var rætt við þau sem vildu sem og starfsfólk og stjórnendur. Skýrsla með ábendingum og tilmælum um atriði sem færa má til betri vegar í starfseminni verður gefin út á næsta ári.