29. janúar 2024

Heilbrigðisráðuneytið beðið um skýringar á ákvæðum í nýrri reglugerð um hjálpartæki

Óskað hefur verið eftir afstöðu heilbrigðisráðuneytisins til þess hvort og þá hvernig breyting á reglugerð um styrki vegna hjálpartækja, samræmist þeim sjónarmiðum sem sett voru fram í áliti umboðsmanns á síðasta ári.

Í álitinu kom fram að umboðsmaður gæti ekki fallist á að hjálpartæki sem nauðsynleg væru eða hentug til leiks og tómstunda barna með fötlun féllu utan efnismarka tiltekinnar greinar í lögum um sjúkratryggingar. Þvert á móti yrði að ganga út frá því að vilji löggjafans hefði staðið til þess að stutt væri við möguleika barna með fötlun til leiks og tómstunda til jafns við önnur börn eftir því sem unnt væri. Í ljósi þess að heilbrigðisráðuneytið upplýsti á sínum tíma að unnið væri að breytingum á reglugerðarákvæðinu var ekki talin ástæða til sérstakra tilmæla þar að lútandi í álitinu. Ráðuneytið var þó upplýst um að umboðsmaður myndi fylgjast með þeim breytingum sem boðaðar voru.

Eftir breytinguna sem gerð var á reglugerðinni 19. janúar sl. skal horft til þess hvort hjálpartæki sé nauðsynlegt til leiks og tómstunda þegar um fötluð börn er að ræða. Hins vegar falla tæki ætluð til líkamsæfinga og íþrótta utan hjálpartækja. Umboðsmaður telur að eftir breytinguna sé ekki fyllilega ljóst hvort síðara ákvæðið eigi einnig við hjálpartæki sem nauðsynleg eru til leiks og tómstunda fatlaðra barn og óskar eftir skýringum ráðuneytisins. Jafnframt er spurt hvort orðalag og framsetning ákvæðanna sé nægilega skýr til þess að þeir sem í hlut eiga geti gert sér grein fyrir þeim réttindum sem þeir kunna að eiga að þessu leyti.

  

  

Bréf umboðsmanns til heilbrigðisráðuneytisins