09. febrúar 2024

Eftirlitsheimsókn á Stuðla

Neyðarvistun Stuðla var skoðuð í vikunni í tengslum við OPCAT-eftirlit umboðsmanns. Þetta er í annað skipti sem slík úttekt er gerð á staðnum.

Þegar umboðsmanni var falið að sinna OPCAT-eftirliti með stöðum þar sem frelsissviptir dvelja var önnur heimsókn hans í þeim tilgangi á neyðarvistun Stuðla árið 2018. Í kjölfar hverrar slíkrar heimsóknar er gerð skýrsla með ábendingum og tilmælum um það sem bæta þarf úr. Því er svo fylgt eftir og athugað hvernig tekist hefur til. Í nóvember sl. var farið í slíka eftirfylgni á neyðarvistunina og í framhaldinu var ákveðið að gera aðra allsherjarúttekt á staðnum sem fram fór í síðustu viku.  

Neyðarvistun Stuðla er ætlað að tryggja öryggi barna, s.s. vegna alvarlegrar áfengis- og vímuefnaneyslu þeirra, hegðunarerfiðleika, óupplýstra afbrota, ofbeldis, útigangs eða stjórnleysis. Markmið með vistun er að stöðva óæskilega hegðun meðan önnur úrræði eru undirbúin af barnaverndarnefndum. Hámarksvistunartími á neyðarvistun eru 14 dagar.