26. mars 2024

Varðveisla og meðhöndlun gagna Innheimtustofnunar sveitarfélaga ekki í samræmi við lög

Ekki var gætt að skyldum Innheimtustofnunar sveitarfélaga um varðveislu og meðhöndlun gagna sem lögmannsstofa sá um fyrir hennar hönd.

Kvartað var yfir ýmsu er snerti málsmeðferð stofnunarinnar á máli vegna innheimtu vangreidds meðlags. Þótt umboðsmaður hlutaðist ekki til um aðgerðir þá átaldi hann vinnulag Innheimtustofnunar sem hefði hvorki verið í samræmi við lög um skjalastjórn og skjalavörslu né skráningarskyldu stjórnvalda. Í ljós kom að stofnunin gat ekki afhent gögn sem óskað hafði verið eftir þar sem hún hafði þau ekki í fórum sínum og beiðnir til lögmannsstofu, sem hafði verið falið að sinna hluta starfsemi stofnunarinnar, um að afhenda þau báru engan árangur. Ekki var því nægilega tryggt að réttarstaða þeirra sem ákvarðanir stofnunarinnar beindust að væri í samræmi við stjórnsýslulög. Þrátt fyrir þetta taldi umboðsmaður ekki forsendur fyrir tilmælum til Innheimtustofnunar. Verkefni hennar hefðu verið flutt annað og tilmæli leiddu vart til annarra svara eða viðbragða en þegar lægju fyrir.

 

   

Álit umboðmanns í málum nr. 12259/2023 og 12379/2023