19. apríl 2024

Persónuvernd gætti ekki að andmælarétti

Persónuvernd gætti ekki jafnræðis við meðferð kvörtunar þegar sá sem kvartaði fékk ekki tækifæri til að tjá sig um efni bréfs frá gagnaðila.

Persónuvernd vísaði málinu frá á þeim forsendum að samskiptin sem kvartað var yfir hefðu fallið utan gildissviðs persónuverndarlaga en rök, sem ekki höfðu komið fram áður við meðferð málsins, voru færð fyrir því í umræddu bréfi. Umboðsmaður lagði áherslu á að þegar meðferð máls varðaði aðila með ólíka og jafnvel andstæða hagsmuni þyrfti stjórnvald að gæta jafnræðis við málsmeðferð og tryggja eftir fremsta megni jafna afstöðu þeirra til aðkomu að máli. Hann taldi ótvírætt að bréfið hefði verið nýtt gagn í málinu og það verið til þess fallið að hafa þýðingu fyrir niðurstöðu þess. Sá sem kvartaði hefði ekki mátt skilja bréf Persónuverndar til sín þannig að fram væru komin svör sem gætu leitt til frávísunar málsins eða að ekki yrði leitað eftir afstöðu hans á síðari stigum og áður en málinu var vísað frá.

Áréttaði umboðsmaður að andmælaréttur aðila máls tæki samkvæmt orðalagi stjórnsýslulaga til efnis máls og takmarkaðist því ekki við rétt til þess að tjá sig um atvik þess og staðreyndir. Minnti hann einnig á að ætla mætti að aðili máls væri fremur tilbúinn að sætta sig við niðurstöðu stjórnvalds ef hann hafi átt raunhæfan kost á að taka virkan þátt í meðferð málsins, s.s. með því að fá tækifæri til að taka afstöðu til lagaatriða.

Niðurstaða umboðsmanns var því að andmælaréttar hefði ekki verið gætt og mæltist umboðsmaður því til að málið yrði tekið upp aftur ef eftir því yrði leitað og þá leyst úr því í samræmi við sjónarmiðin í álitinu.

  

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 12305/2023