13. júní 2024

Kvörtun til landlæknis ekki lögð í réttan farveg

Heilbrigðisráðuneytið fór ekki að lögum þegar það staðfesti málsmeðferð landlæknis á kvörtun, þar sem embætti landlæknis lagði málið ekki í réttan farveg.

Landlæknir leit á kvörtun til embættisins sem athugasemdir við þjónustu fremur en formlega kvörtun og framsendi málið lækninum sem hún beindist að. Staðfesti heilbrigðisráðuneytið þá meðferð málsins. Umboðsmaður benti á að eftirliti landlæknis væri ætlað að tryggja réttindi og hagsmuni sjúklinga gagnvart heilbrigðisstofnunum og starfsmönnum og að sá sem legði fram kvörtun til embættisins ætti að njóta réttaröryggis í samræmi við lög. Í því sambandi benti umboðsmaður á að við afgreiðslu á erindi sem fæli í sér athugasemd við þjónustu nyti sjúklingur ekki þeirra réttinda sem mælt er fyrir um í stjórnsýslulögum. Ekki væri kveðið á um neinn lágmarks- eða alvarleikaþröskuld til að erindi yrði tekið til meðferðar sem kvörtun líkt og ráðuneytið hefði vísað til þegar það staðfesti afgreiðslu embættisins. Landlækni hefði borið að taka málið til meðferðar og ljúka því með formlegri afgreiðslu og faglegu áliti sínu á atvikum þess. Staðfesting heilbrigðisráðuneytisins á málsmeðferð landlæknis hefði því ekki verið í samræmi við lög og var mælst til þess að ráðuneytið tæki máli aftur til meðferðar ef eftir því yrði leitað.

  

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 12179/2023