Starfssvið umboðsmanns Alþingis. Ríkisútvarpið ohf. Opinber hlutafélög.

(Mál nr. 5555/2009)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir synjun Ríkisútvarpsins ohf. um að veita sér skriflegan rökstuðning fyrir uppsögn hans. Í kvörtun A kom fram að hann hefði fengið skriflegt staðlað uppsagnarbréf þar sem fram kæmi að Ríkisútvarpið ohf. þyrfti að fækka fólki til hagræðingar á rekstri sínum. Í kvörtuninni var vísað til 44. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og að A teldi sig eiga rétt á að fá nánari skýringu á ástæðum uppsagnarinnar.

Umboðsmaður lauk máli þessu með bréfi, dags. 4. febrúar 2009, þar sem hann taldi að ekki væru uppfyllt skilyrði laga til að hann tæki erindi A til frekari meðferðar. Í bréfinu rakti umboðsmaður m.a. ákvæði laga 85/1997, um umboðsmann Alþingis, þar sem fram kemur að starfssvið umboðsmanns nái einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem hafa að lögum fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umboðsmaður rakti einnig ákvæði laga nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., breytingar sem gerðar voru á þeim með lögum nr. 90/2006 og lögskýringargögn að baki þeim breytingum. Umboðsmaður benti síðan á að ljóst væri að Ríkisútvarpið ohf. væri opinbert hlutafélag. Félagið starfaði því á sviði einkaréttar þótt það væri að öllu leyti í eigu ríkisins. Ákvarðanir þess um ráðningu og uppsögn starfsmanna væru því einkaréttarlegs eðlis en ekki ákvarðanir í merkingu stjórnsýslulaga. Umboðsmaður taldi því falla utan starfssviðs síns að fjalla frekar um kvörtunarefnið.

Bréf umboðsmanns Alþingis til A, dags. 4. febrúar 2009, hljóðar svo í heild sinni:

I.

Ég vísa til kvörtunar yðar sem barst mér 9. janúar sl. og lýtur að starfslokum yðar hjá Ríkisútvarpinu ohf., en yður var sagt upp störfum þann 28. nóvember sl. Nánar tiltekið lýtur kvörtunin að synjun Ríkisútvarpsins ohf. á því að veita yður skriflegan rökstuðning fyrir uppsögn yðar. Í kvörtuninni takið þér m.a. fram að þér hafið fengið skriflegt, staðlað uppsagnarbréf, þar sem fram komi að Ríkisútvarpið ohf. þurfi að fækka fólki til hagræðingar á rekstri sínum. Þér vísið til 44. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og teljið að þér eigið rétt á því að fá nánari skýringu á því hvers vegna yður var sagt upp. Óskið þér eftir áliti umboðsmanns á því hvort skilningur yðar á lagagreininni sé réttur.

Það er ljóst af þeim gögnum sem fylgdu kvörtun yðar að útvarpsstjóri ritaði yður bréf, dags. 28. nóvember 2008. Í bréfinu er frá því greint að vegna erfiðrar rekstrarstöðu standi yfir hagræðing í rekstri hjá stofnuninni. Ekki væri því hjá því komist að fækka starfsmönnum. Einnig liggur fyrir af gögnum málsins að þér rituðuð tölvubréf til deildarstjóra hljóðdeildar Ríkisútvarpsins ohf., dags. 6. janúar 2009. Fóruð þér fram á skriflega skýringu á því hvers vegna þér urðuð fyrir valinu þegar ákveðið var að segja upp tveimur tæknimönnum Ríkisútvarpsins ohf. 28. nóvember sl. Tókuð þér fram að þar sem ekki hefði verið beitt neinum þeim aðferðum, sem til siðs væru við slíkar uppsagnir, né heldur gætt að réttindum yðar og annarra sem opinberra starfsmanna, telduð þér yður eiga fullan rétt á því að fá nánari skýringu á því hvað varð til þess að þér voruð valinn úr hópnum fram yfir aðra tæknimenn, jafnvel þá sem væru með styttri starfsreynslu. Í niðurlagi tölvubréfs yðar óskuðuð þér eftir því að deildarstjóri hljóðdeildar svaraði yður skriflega fyrir hádegi 9. janúar sl., öðrum kosti mynduð þér þá senda bréf til umboðsmanns Alþingis og biðja um liðsinni hans í málinu.

Hinn 19. janúar sl. bárust mér svo viðbótargögn frá yður, nánar tiltekið afrit af tölvubréfasamskiptum yðar og X, deildarstjóra, og yfirlýsing frá dagskrárgerðarmönnum útvarps er send var Y, útvarpsstjóra.

II.

Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna nær starfsvið umboðsmanns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem hafa að lögum fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Alþingi hefur sett sérstök lög um Ríkisútvarpið ohf., lög nr. 6/2007. Í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur fram að Ríkisútvarpið ohf. sé „sjálfstætt hlutafélag“ í eigu íslenska ríkisins. Í 8. gr. eru ákvæði sem lúta að stjórn félagsins. Í 1. mgr. 8. gr. segir m.a. að stjórn félagsins skuli kosin á „aðalfundi“ sem haldinn skal fyrir lok maímánaðar. Í 9. gr. laganna eru ákvæði um starfssvið stjórnarinnar. Í 2. mgr. er kveðið á um að öðru leyti en greini í 1. mgr. ákveðist starfssvið stjórnar í „samþykktum félagsins, sbr. lög um hlutafélög nr. 2/1995, með síðari breytingum.“ Í 1. mgr. 12. gr. laganna er kveðið á um að öðru leyti en fram komi í lögunum gildi um Ríkisútvarpið ohf. „lög nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum“.

Með lögum nr. 90/2006 var gerð breyting á lögum nr. 2/1995. Eftir þá breytingu kemur fram í 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. laganna að opinbert hlutafélag merki í lögunum félag sem hið opinbera, einn eða fleiri hluthafar, eigi að öllu leyti, beint eða óbeint. Í almennum athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi því er varð að ofangreindum lögum nr. 90/2006, segir að ákvæði laga um opinbera starfsmenn gildi ekki formlega um opinber hlutafélög. Með þetta í huga, og vegna tilvísunar yðar til laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, tek ég fram að í 1. tölul. 2. mgr. 2. gr. laganna er mælt svo fyrir að lögin taki ekki til starfsmanna hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, jafnvel þótt þau séu að öllu leyti í eigu ríkisins.

Þegar þau ákvæði, sem rakin eru hér að framan, eru virt er þannig ljóst að Ríkisútvarpið ohf. er opinbert hlutafélag. Félagið starfar því á sviði einkaréttar þótt það sé að öllu leyti í eigu ríkisins, sbr. ákvæði fyrri málsl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 6/2007. Ákvarðanir þess um ráðningu og uppsögn starfsmanna eru því einkaréttarlegs eðlis en ekki ákvarðanir í merkingu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það fellur því utan við starfssvið umboðsmanns Alþingis, eins og það er afmarkað í áðurgreindum ákvæðum laga nr. 85/1997, að fjalla frekar um kvörtunarefni yðar.

Samkvæmt framansögðu eru ekki uppfyllt skilyrði laga til að ég taki erindi yðar til frekari meðferðar og er afskiptum mínum af því lokið með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Róbert R. Spanó.