A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði innanríkisráðuneytisins þar sem staðfest var ákvörðun fangelsismálastofnunar um að synja honum um breytingu á útreikningi á refsitíma hans með tilliti til reynslulausnar.
Árið 2006 var A dæmdur með dómi Hæstaréttar til sex ára óskilorðsbundinnar fangelsisvistar. Honum var veitt reynslulausn að liðnum helmingi dæmds refsitíma árið 2008 en síðar sama ár var honum gert að sæta framhaldsafplánun á 1080 daga eftirstöðvum refsingarinnar á þeim grundvelli að hann hefði rofið almennt skilyrði reynslulausnar. Með dómi Hæstaréttar árið 2010 var A síðan dæmdur til átta ára fangelsisvistar vegna nýs brots en refsing samkvæmt fyrri dómi var ekki tekin upp og dæmd með í því máli.
Lögum samkvæmt og að tilteknum skilyrðum uppfylltum er heimilt að veita fanga reynslulausn þegar hann hefur afplánað annaðhvort tvo þriðju hluta eða helming refsitíma. Í tilkynningu fangelsismálastofnunar til A um afplánun á dómi Hæstaréttar frá 2010 kom fram að helmingur og tveir þriðju hlutar refsitíma væru reiknaðir af refsingu samkvæmt dóminum frá 2010 ásamt 1080 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt dómi Hæstaréttar árið 2006. A taldi hins vegar að refsitíma hans bæri að reikna út með þeim hætti að leggja saman sex ára fangelsisrefsingu samkvæmt dóminum frá 2006 og átta ára fangelsisrefsingu samkvæmt dóminum frá 2010 en með þeirri aðferð ætti hann kost á reynslulausn mun fyrr. Á þeim grundvelli kærði A ákvörðun fangelsismálastofnunar um að hafna því að breyta útreikningi á refsitíma hans til innanríkisráðuneytisins. Í úrskurði innanríkisráðuneytisins í málinu var þriðja reikningsaðferðin lögð til grundvallar, þ.e. að refsitímann bæri að reikna út með þeim hætti að A bæri að ljúka afplánun á fyrri refsingu og þá fyrst hæfist nýr refsitími. Í ljósi þess m.a. að sú niðurstaða var A meira til íþyngingar taldi ráðuneytið engu að síður rétt að staðfesta ákvörðun fangelsismálastofnunar að því er varðaði útreikning á því hvenær A taldist hafa afplánað helming og tvo þriðju hluta refsingar sinnar.
Settur umboðsmaður Alþingis gerði grein fyrir samspili ákvæða laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga og rakti jafnframt sögulega þróun lagaákvæða um reynslulausn. Hann taldi að með lögfestingu 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 hefði ekki verið ætlunin að hrófla við því fyrirkomulagi að við útreikning á refsitíma dómþola, sem hefur sætt framhaldsafplánun vegna rofa á almennu skilyrði reynslulausnar og síðar verið dæmdur til nýrrar fangelsisrefsingar, væri heimilt að taka tillit til eftirstöðva fyrri refsingar hans. Að því virtu gat settur umboðsmaður ekki fallist á þá afstöðu innanríkisráðuneytisins að undantekningarlaust yrði að líta svo á að refsitími síðari refsingar hæfist ekki fyrr en viðkomandi hefði lokið afplánun þeirrar fyrri. Settur umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu að þær forsendur sem komu fram í úrskurði innanríkisráðuneytisins í máli A hefðu ekki verið í samræmi við lög. Þar sem efnisleg niðurstaða ráðuneytisins var sú að staðfesta ákvörðun fangelsismálastofnunar, en þá ákvörðun taldi settur umboðsmaður vera í samræmi við lög, var hins vegar ekki tilefni til þess fyrir settan umboðsmann að mælast til þess við ráðuneytið að endurskoða mál A.
Settur umboðsmaður Alþingis óskaði þess að innanríkisráðuneytið hefði þau sjónarmið sem komu fram í áliti hans í málinu framvegis í huga við úrlausn sambærilegra mála. Settur umboðsmaður ákvað einnig að vekja athygli innanríkisráðherra og Alþingis á því að nauðsynlegt væri að meta hvort þörf væri á því að kveða með skýrari hætti í lögum á um þá efnisreglu sem leggja ber til grundvallar í máli af þessu tagi.